Innflytjendur eru að jafnaði með tæplega 8 prósent lægri laun en innlendir hér á landi. Það er að teknu tilliti til kyns, aldurs, menntunar, fjölskylduhaga, búsetu og ýmissa starfstengdra þátta en með því að leiðrétta fyrir þessum þáttum fæst skýrari mynd af þeim áhrifum sem bakgrunnur hefur á laun hér á landi. Þetta kemur fram í greiningu Hagstofu Íslands á launamun innflytjenda og innlendra fyrir tímabilið 2008 til 2017 sem unnin var í samvinnu við innflytjendaráð.
Innlent ræstingafólk með 11 prósent hærri laun en innflytjendur í sama starfi
Á vef Hagstofunnar eru innflytjendur skilgreindir sem einstaklingar sem fæddir eru erlendis og eiga foreldra sem báðir eru fæddir erlendis, auk þess að eiga afa og ömmur sem öll eru fædd erlendis. Innlendir er notað yfir alla aðra, sem eru þá að einhverju leyti með íslenskan bakgrunn.
Í niðurstöðum Hagstofunnar kemur fram að innlendir eru með hærri laun en innflytjendur í þeim störfum sem innflytjendur vinna oftast við hér á landi. Þá hafi skilyrtur launamunur verið 10 prósent í störfum ræstingafólks og aðstoðarfólks í mötuneytum milli innlendra og innflytjenda, 11 prósent í störfum verkafólks við handsamsetningu og 8 prósent í störfum við barnagæslu.
Jafnframt benda útreikningar Hagstofunnar til þess að innflytjendur beri að jafnaði minna úr býtum fyrir menntun sína en innlendir. Það á bæði við um grunnmenntaða og háskólamenntaða einstaklinga
Innflytjendur fæddir á Norðurlöndunum með hærri laun
Þá eru innflytjendur fæddir á Norðurlöndunum að jafnaði með hærri laun en innflytjendur fæddir í öðrum löndum. Til dæmis eru innflytjendur frá Vestur-Evrópu að jafnaði með 4 prósent lægri laun en innflytjendur frá Norðurlöndunum og innflytjendur frá Austur-Evrópu að jafnaði með 6 prósent lægri laun. Lægstu launin, miðað við innflytjendur frá Norðurlöndunum, hafa innflytjendur frá Asíu, eða 7 prósent að jafnaði.
Niðurstöður Hagstofunnar sýndu einnig að þeir innflytjendur sem komu til Íslands fyrir 6 til 9 árum hafa að jafnaði 2 prósent hærri laun en þeir sem hafa dvalið hér á landi 5 ár eða skemur. Þær sýna einnig að þeir sem hafa verið hér í 10 ár eða lengur eru að jafnaði með 3 prósent hærri laun.
Farið að hægja á fjölgun erlendra ríkisborgara
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að erlendum ríkisborgurum sem búsettir eru á Íslandi fjölgaði um 820 á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2019. Þeir voru alls 45.130 í byrjun þessa mánaðar. Til samanburðar þá fjölgað erlendum ríkisborgurum með búsetu á Íslandi um 1.620 á fyrsta ársfjórðungi ársins 2018. Því virðist allt stefna í að mun færri erlendir ríkisborgarar muni flytja til landsins á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en gerðu það á sama tímabili í fyrra.
Á árunum 2017 og 2018 átti sér stað metfjölgun erlendra ríkisborgara sem koma hingað til lands til að búa hér. Á því tímabili fjölgaði þeim um alls 13.930, eða um tæp 46 prósent. Ástæðan er sú að á Íslandi var mikill efnahagsuppgangur og mikill fjöldi starfa var að fá samhliða þeim uppgangi, sérstaklega í þjónustustörfum tengdum ferðaþjónustu og í byggingaiðnaði. Nú þegar hagkerfið er farið að kólna og spenna að losna þá virðist sem erlendum ríkisborgurum sem sækja hingað til lands fækki samhliða.