Kristjón Kormákur Guðjónsson hefur sagt upp störfum á DV, þar sem hann hefur gegnt starfi aðalritstjóra frá því í desember 2017. Frá þessu er greint á Vísi.is.
Þar segir Kristjón að hann sé að ganga til liðs við sjónvarpsstöðina Hringbraut þar sem hann mun fá það hlutverk að blása lífi í vef miðilsins og tengja saman sjónvarps- og vefhluta hans. Kristjón hefur störf á Hringbraut á morgun, þriðjudag.
Miklar sviptingar hafa verið innan DV og tengdra miðla miðla undanfarin misseri. Frjáls fjölmiðlun keypti í haustið 2017 fjölmiðla Pressusamstæðunnar: DV, DV.is, Eyjuna, Pressuna, Bleikt, Birtu, Doktor.is, 433.is og sjónvarpsstöðina ÍNN. ÍNN hefur síðan verið sett í þrot.
Hluti skulda Pressunnar voru skildar eftir í henni og félagið svo sett í þrot. Alls var kröfum upp á 315 milljónir króna lýst í þrotabú Pressunnar. Skiptastjóri búsins viðurkenndi kröfur upp á 110 milljónir króna en hafnaði öðrum. Skiptastjóri búsins vill láta rifta ráðstöfunum á fjármunum upp á samtals um 400 milljónir króna sem áttu sér stað áður en Pressan var sett í þrot.
Frjáls fjölmiðlun ehf. tapaði 43,6 milljónum króna á þeim tæpu fjórum mánuðum sem félagið var starfandi á árinu 2017. Tekjur þess voru 81,4 milljónir króna frá því að félagið hóf starfsemi í september 2017 og fram að áramótum. Eigandi Frjálsrar fjölmiðlunar er félagið Dalsdalur ehf. Eini skráði eigandi þess er Sigurður G. Guðjónsson lögmaður sem er einnig skráður fyrirsvarsmaður Frjálsrar fjölmiðlunar hjá Fjölmiðlanefnd.
Björn Ingi Hrafnsson, sem hafði verið aðaleigandi og stjórnandi Pressusamstæðunnar, snéri aftur í fjölmiðla í nóvember í fyrra þegar hann stofnaði fjölmiðilinn Viljann.