Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, mælti í gær á Alþingi fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um loftlagsmál. Í frumvarpinu er lögð sú skylda á Stjórnarráð Íslands, stofnanir ríkisins og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins skuli að setja sér loftslagsstefnu.
Verði frumvarpið að lögum þurfa ríkisaðilar að setja fram skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun viðkomandi starfsemi í loftlagsstefnunni, auk aðgerða svo þeim markmiðum verði náð. Í loftlagsstefnu Stjórnarráðsins, sem verið er að leggja lokahönd á, er meðal annars gert ráð fyrir kolefnisjöfnun flugferða starfsmanna.
Loksins hafa loftlagsmálin fengið þann sess sem þeim ber
Í framsögu Guðmundar Ingi á Alþingi í gær kom fram að frá því að lög um loftlagsmál voru sett fyrir sjö árum hafi loftlagsvandinn vaxið og meðvitund um hann stóraukist. Aukin krafa sé nú gerð um viðbrögð og aðgerðir á alþjóðavísu, sem og í íslensku samfélagi. „ Margt hefur breyst og rík þörf er á að uppfæra lögin. Ríkisstjórnin hefur sett loftslagsmálin á oddinn og mikil vinna á sér nú stað varðandi þennan málaflokk. Loksins hafa loftslagsmálin fengið þann sess sem þeim ber,“ sagði Guðmundur Ingi.
Í frumvarpinu eru lagðar fram ýmsar breytingar sem miða því að að ná markmiðum Ísland í loftlagsmálum, þar á meðal um samdrátt í losun til 2030 samkvæmt ákvæðum Parísarsamningsins, um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 og um aðlögun að loftslagsbreytingum og efldar rannsóknir og vöktun.
Kolefnisjafna flugferðir starfsmanna
Guðmundur Ingi sagði að það að skylda ríkisaðila til að setja sér loftslagsstefnu, líkt og gert er í frumvarpinu, marki ákveðin þáttaskil og að sú skyldi muni hafa margfeldisáhrif hér á landi ef frumvarpið verði samþykkt. Hann telur að þetta muni ekki einungis draga úr losun heldur felst gildið ekki síst í því fordæmi sem Stjórnarráðið og aðrir opinberir aðilar sýni með þessu.
Í loftlagsstefnu Stjórnarráðsins, sem verið er að leggja lokahönd á, er gert ráð fyrir því að ráðið kolefnisjafni starfsemi sína. Þar með talið er sú losun sem verður vegna flugferða starfsmanna Stjórnaráðsins, jafnt innan lands sem utan. Í stefnunni er auk þess gerð krafa á ríkisstofnanir um slíka kolefnisjöfnun. Þetta kemur fram í svari Guðmundar Inga við fyrirspurn Ara Trausta Guðmundssonar, þingmanns Vinstri Grænna um samgöngusamninga og kolefnisjöfnun vegna flugferða.
Í svari Guðmundar kemur einnig fram að eitt þeirra markmiða sem ríkisaðilar geta sett sér í loftslagsstefnum sínum sé að auka hlutfall starfsmanna sem eru með samgöngusamninga, þar sem starfsmenn nýta sér almenningssamgöngur eða vistvænan ferðamáta til að ferðast til og frá vinnu. Hann segir að það sé aftur á móti í höndum hvers og eins ríkisaðila að ákveða hvort boðið sé upp á slíka samninga fyrir starfsmenn en margir ríkisaðilar bjóða þegar upp á samgöngusamninga fyrir starfsmenn sína. Stjórnarráðið hyggst með sinni eigin loftslagsstefnu efla samgöngusamninga allra ráðuneyta og samræma þá.
Þá er gert ráð fyrir því í frumvaprinu að Umhverfisstofnun leiðbeini ríkisstofnunum um gerð og framkvæmd loftslagsstefnu og að hún nái til starfsemi viðkomandi aðila og losunar sem tengist henni. Árlega skili síðan Umhverfisstofnun skýrslu til ráðherra um árangur stofnana ríkisins og fyrirtækja í meirihlutaeigu ríkisins.
Loftlagsráð fest í lög
Í frumvarpinu er jafnframt í fyrsta skipti kveðið á um Loftslagsráð í lögum og tekið fram að ráðið sé sjálfstætt og óhlutdrægt í störfum sínum. Loftslagsráð hefur þegar hafið störf og er skipað fulltrúum atvinnulífs, sveitarfélaga, umhverfissamtaka og háskólasamfélagsins. Ráðið á að leiðbeina stjórnvöldum um gerð áætlunar um hvernig megi aðlaga íslenskt samfélag óumflýjanlegum loftslagsbreytingum.
Jafnframt er lagt til nýtt ákvæði í frumvarpinu sem fjallar um aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum. Verði frumvarpið að lögum verður fest í lög sú skylda ráðherra að láta vinna áætlun um aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum, á grundvelli bestu vísindalegrar þekkingar. Í frumvarpinu er einnig ákvæði um skýrslu sem ráðherra lætur vinna um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar og samfélag á Íslandi. Slíkar skýrslur hafa áður verið unnar að beiðni ráðherra, en í ljósi fyrirsjáanlegra áhrifa og breytinga á náttúrufar og samfélag verður slík skýrslugerð nú lögfest.
Önnur ákvæði frumvarpsins varða breytingar á gildandi ákvæðum laganna, til dæmis varðandi loftslagssjóð. Samkvæmt frumvarpinu munu fjárveitingar til loftslagsmála munu ekki eingöngu koma í gegn um loftslagssjóð. Sjóðurinn mun hins vegar gegna mikilvægu hlutverki þar og fær skýrari leiðsögn varðandi verkefni sín með þeim tillögum sem hér eru settar fram. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn taki til starfa innan skamms.