Verkfalli strætisvagnastjóra Kynnisferða hefur verið aflýst frá og með morgundeginum. Strætisvagnastjórar munu stöðva akstur í dag milli klukkan 16 og 18 eins og áætlað var en öðrum verkföllum aflýst. Í tilkynningu frá Eflingu segir að þessi ákvörðun hafi verið tekin af starfsmönnum eftir viðræður við forsvarsmenn fyrirtækisins í morgun.
Meginlínur samninga liggja fyrir
Fram kom í fréttum í morgun að gengið hefði verið frá yfirlýsingu um meginlínur kjarasamninga á milli Samtaka atvinnulífsins og VR og félaga Starfsgreinasambandsins, skömmu eftir miðnætti. Samningunum er ætlað að standa til 1. nóvember 2022. Samkomulagið er þó með fyrirvara um aðkomu stjórnvalda að samningum, og samþykki samninganefnda þeirra félaga um eiga aðild að samkomulaginu. Deiluaðilar munu funda með stjórnvöldum í húsakynnum Ríkissáttasemjara í dag.
Í tilkynningu frá Eflingu í morgun var greint frá því að höfðu samráði við félagsmenn hafi formaður Eflingar ákveðið að aflýsa verkfallsaðgerðum og vinna að lokagerð samnings. Fyrirhuguðum þriggja daga verkföllum starfsmanna hótela og rútufyrirtækja, hjá Eflingu og VR, sem áttu hefjast á miðvikudaginn var því aflýst í nótt.
Verkfall strætisvagnastjóra Kynnisferða, sem eru félagsmenn í Eflingu, var þó ekki aflýst á sama tíma. Verkfallið hófst í gær og lögðu bílstjórar niður vinnu á tíu strætóleiðum á háanna tíma eða milli 8 og 10 að morgni og fjögur og sex seinni part. Aðgerðirnar áttu að standa út mánuðinn ef ekki næðust samningar en nú hefur verkfallinu verið aflýst frá og með morgundeginum.