Jarðvarmi, félag í eigu fjórtán lífeyrissjóða, hefur áform um að nýta sér kauprétt sinn og ganga inn í kaup á 54 prósenta hlut í HS Orku fyrir um 37 milljarða. Kaup félagsins yrðu gerð í samstarfi við breska fjárfestingafyrirtækið Ancala Partners. Gangi kaupin eftir verður eignarhlutur Jarðvarma og Ancala jafn stór eftir viðskiptin, þannig að hvor aðili um sig fari með rúmlega 43 prósenta hlut í HS Orku. Frá þessu greint í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins, í dag. .
Greiða atkvæði um kaup Jarðvarma í næstu viku
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að fjárfestingarsjóður í stýringu hjá Macquarie Infrastructure and Real Assets (MIRA) hafi undirritað kaupsamning á 53,9 prósent hlut Magma Energy Sweden í íslenska orkufyrirtækinu HS Orku á 304,8 milljónir dala, eða um 37 milljarða króna. Miðað við verðmiðann sem er á sölunni til MIRA þá er heildarvirði HS Orku nú tæplega 69 milljarðar króna.
Gangi kaup MIRA eftir mun sá sjóður eiga 53,9 prósent hlut í HS Orku, Jarðvarmi á 33,4 prósent hlut og félag í eigu Bretans Edmund Truell,sem lengi hefur unnið að því að koma sæstreng milli Íslands og Bretlands, á 12,7 prósent.
Samkvæmt heimildum Markaðarins er gert ráð fyrir því að Jarðvarmi bæti við sig um tíu prósenta hlut en að afgangurinn , eða um 43 prósenta hlutur, verði keyptur af Ancala. Eignarhlutur Jarðvarma og Ancala yrði þá jafn stór, hvor aðili um sig færi þá með rúmlega 43 prósenta hlut í HS Orku.
Áætlaður EBITDA-hagnaður 3,8 milljarðar á árinu 2019
HS Orka er þriðji stærsti raforkuframleiðandi landsins og eina íslenska orkufyrirtækið sem er í eigu einkaaðila. Það á og rekur orkuver í Svartsengi og á Reykjanesi auk þess sem virkjanakostir sem fyrirtækið á eru í nýtingarflokki rammaáætlunar.
Í árslok 2017 átti HS Orka eigið fé upp á 35,5 milljarða króna og skilaði hagnaði um á 4,6 milljarða króna. Þar voru eignir HS Orku metnar á 48,4 milljarða króna en flestir sérfræðingar eru sammála um að þær séu verulega vanmetnar. Í þeim sama ársreikningi var nefnilega 30 prósent eignarhlutur fyrirtækisins í Bláa lóninu bókfærður á 2,7 milljarð króna, sem er líkast til umtalsvert undir markaðsvirði í ljósi þess að boði upp á ellefu milljarða króna í hlutinn var hafnað fyrir tveimur árum og að Bláa lónið var verðlagt á um 50 milljarða króna alls í viðskiptum sem áttu sér stað tengt því í lok árs í fyrra.
Í fjárfestakynningu sem notast var við vegna söluferlisins sem lauk með kaupum MIRA, og bar nafnið „Project Thor“, sagði að áætlaður EBITDA-hagnaður HS Orku, hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta, á árinu 2019 væri 31 milljón dala, eða tæplega 3,8 milljarðar króna. Þar er hins vegar einnig gert ráð fyrir að EBITDA-hagnaður HS Orku muni nánast tvöfaldast á árinu 2023 og verða um 60 milljónir dala, eða um 7,3 milljarðar króna.