Jón Þór Birgisson, söngvari Sigur Rósar, og endurskoðandi hans, hafa verið ákærðir fyrir að hafa komið félagi í eigu Jóns Þórs undan greiðslu tekjuskatts af rúmlega 700 milljónum króna. Ákæran var lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun þegar Sigur Rósar-málið var þingfest. Jón Þór og endurskoðandi hans neituðu báðir sök. Frá þessu er greint á RÚV.
Málið snýst um samlagsfélagið Frakk sem Jón Þór á. Í ákærunni er Jóni Þór og endurskoðandanum gefið að sök að hafa ekki staðið skil á skattframtölum vegna gjaldáranna 2011 til 2015.
Saksóknari segir að þeir hafi sleppt því að telja fram rekstrartekjur félagsins á þessum árum sem námu rúmum 700 milljónum og þannig komið félaginu undan greiðslu tekjuskatts upp á 146 milljónir.
Þetta er önnur ákæran á hendur Jóni Þór og endurskoðanda hans en söngvarinn er einnig ákærður fyrir brot sem tengjast félögum í eigu liðsmanna Sigur Rósar. Þar nema brot hans 43 milljónum króna og er söngvarinn því ákærður fyrir 190 milljóna skattalagabrot.
Hörmuðu að málið færi fyrir dóm
Allir liðsmenn Sigur Rósar nema Kjartan Sveinsson eru ákærðir fyrir meiriháttar skattalagabrot með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattaframtölum gjaldárin 2011 til og með 2014. Kjartan er sagður hafa staðið skil á efnislega röngum skattaframtölum árin 2012 og 2014.
Þremur liðsmönnum sveitarinnar, Georg Holm, Jón Þór og Orri Páll Dýrason, er gefið að sök að hafa komist undan greiðslu tekjuskatts og fjármagnsskatts. Kjartan, sem hætti í Sigur Rós fyrir sex árum, er ákærður fyrir að hafa komist hjá því að greiða tekjuskatt.
Málið hefur vakið talsverða athygli erlendis og var meðal annars til umfjöllunar í The Guardian, Pitchfork og á vef People.
Í tilkynningu sem hljómsveitin sendi frá sér í síðustu viku segir að meðlimirnir hennar harmi að málið þurfi að fara fyrir dóm en vonist á sama tíma til þess að málsástæður þeirra skýrist. Þá segir að þeir hafi ávallt haft fullan ásetning til að standa í réttum skilum við skattyfirvöld og stóðu í þeirri trú að það hefði verið gert.
Ekki sérfróðir í bókhaldi
Haft er eftir Bjarnfreði Ólafssyni, lögmanni hjá LOGOS lögmannsþjónustu, í tilkynningunni að hljómarsveitarmennir töldu að þessi máli væru í lagi og í höndum fagmanna.
„Hljómsveitarmeðlimir eru tónlistarmenn og ekki sérfróðir í bókhaldi og alþjóðlegum viðskiptum – hvað þá í framtalsgerð og skattskilum. Þess vegna réðu þeir viðurkennda sérfræðinga til að annast bókhald og öll samskipti við íslensk skattyfirvöld. En í ljós hefur komið að röngum framtölum var skilað til ríkisskattstjóra og/eða þeim skilað alltof seint. Á sama tíma töldu hljómsveitarmeðlimir að þessi mál væru í lagi og í höndum fagmanna. Það verður núna verkefni Héraðssaksóknara að færa sönnur fyrir því að hljómsveitarmeðlimir hafi sjálfir gerst sekir um stórfellda vanrækslu á framtalsskyldu sinni. Í ljósi málsatvika fæ ég ekki séð hvernig það verður hægt og þess vegna veldur það vonbrigðum að embætti Héraðssaksóknara hafi tekið ákvörðun um ákærur á hendur þeim,“ segir Bjarnfreður.
Sýslumaður kyrrsetti eignir
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu kyrrsetti eignir meðlima Sigur Rósar, að kröfu tollstjóra, í mars á síðasta ári. Um var að ræða kyrrsetningu upp á tæplega 800 milljónir króna sem náði til allra þriggja meðlima sveitarinnar; Jóns Þórs Birgissonar, Georgs Hólm og Orra Páls Dýrasonar.
Samkvæmt því sem fram kom í umfjöllun fjölmiðla á sínum tíma var ástæðan fyrir aðgerðunum rannsókn skattrannsóknarstjóra á meintum skattalagabrotum meðlima sveitarinnar. Krafan var tekin fyrir og birt þremenningunum í desember árinu áður.
Undir hana féllu kyrrsetningar á fasteignum, ökutækjum, bankareikningum og hlutafé í fyrirtækjum. Hæsta krafan var á hendur söngvara sveitarinnar, Jóni Þór, eða Jónsa líkt og hann er jafnan kallaður, en hún nam 638 milljónum króna. Þar var um að ræða kyrrsetningu á þrettán húseignum, tveimur bifhjólum og tveimur fólksbílum, sem og sex bankareikningum og hlutafé í þremur fyrirtækjum. Þá voru tvær fasteignir í eigu trommarans Orra Páls kyrrsettar, en verðmæti þeirra er um 82 milljónir króna. Tvær fasteignir í eigu bassaleikarans Georgs Hólm voru kyrrsettar og er verðmæti þeirra 78,5 milljónir.
Allir þrír mótmæltu kyrrsetningunni á grundvelli þess að stór hluti hennar varði einfalda túlkun á tekjuskattslögum. Um hafi verið að ræða handvömm endurskoðanda en ekki ásetning um að fremja glæp.