Landspítalinn mun taka þátt í fyrsta samnorræna lyfjaútboðinu ásamt Lyfjainnkaupastofnun Danmerkur og Lyfjainnkaupastofnunar Noregs. Útboðsgögnin hafa nú verið birt, en alls er þar óskað eftir tilboðum í sex lyf: Methotrexat, anagrelid, meropenem, ondansetron, gentamicin og paracetamol. Frá þessu er greint á vef Landspítalans.
Farið er í sameiginlegt útboð til þess að auka afhendingaröryggi lífsnauðsynlegra lyfja sem mikil verðsamkeppni ríkir um.
Í frétt Landpítalans segir að undanfarið hafi skortur á eldri lyfjum verið vaxandi vandamál. Sá lyfjaskortur sé ein af ástæðum þess að löndin þrjú hafi unnið að sameiginlegu útboði.
Heilbrigðisráðherrar Noregs og Danmerkur skrifuðu undir samkomulag um að hefja sameiginleg kaup á ákveðnum lyfjum í fyrrahaust. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ekki skrifað undir samkomulagið en samkvæmt frétt Landspítalans mun hún skrifa undir viðauka við samkomulagið.
Hulda Harðardóttir, verkefnastjóri lyfjainnkaupa hjá Landspítalanum, segir þessa norrænu samvinnu hafa verið mjög ánægulega og lærdómsríka og að mjög mikilvægt sé fyrir lítið land eins og Ísland að fá að vera með í slíkri vinnu. „Það er von okkar að samvinna sem þessi geti m.a. aukið afhendingaröryggi á þeim lyfjum sem hafa verið í skorti undanfarið. Þetta er fyrsta sameiginlega norræna lyfjaútboðið með þessum hætti, takist það vel, verður það mikið tilhlökkunar efni að taka þátt í fleiri sameiginlegum norrænum lyfjainnkaupum í framtíðinni,“ segir hún.