Julian Assange, stofnandi Wikileaks, hefur verið handtekinn í London en hann hefur búið í sendiráði Ekvadór undanfarin ár. Frá þessu er greint í frétt RÚV. Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks, segir í samtali við RÚV að Assange hafi verið tilkynnt á síðustu mínútum að stjórnvöld í Ekvadór hefðu tekið til baka diplómatíska vernd og að hann yrði að yfirgefa sendiráðið.
Kristinn segir jafnframt að Assange hafi verið handtekinn innan veggja sendiráðsins og að hann hafi verið handtekinn vegna þess að bresk stjórnvöld telji hann hafa rofið tryggingu þegar hann sótti um pólitískt hæli í Ekvadór. „Þetta er yfirleitt minniháttar brot og er yfirleitt lokið með dómssátt,“ segir hann.
Assange sótti um hæli í Ekvadór vegna rannsóknar sænskra stjórnvalda á ásökunum um kynferðisbrot en fram kemur í frétt BBC að málið hafi verið fellt niður. Assange verður leiddur fyrir dómara við dómstólinn í Westminster eins fljótt og auðið er.
Kristinn segist eiga von á því að nú taki við önnur barátta, að framsalskrafa komi frá Bandaríkjunum sem tengist ákæru sem hafi verið gefin út með leynd en hafi fengist staðfest.