Rúmlega þriðja hver íbúð sem er í byggingu í Reykjavík er í póstnúmerinu 101, þar eru meðtaldar íbúðir við Hlíðarenda í Vatnsmýri. Alls eru nú 4988 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu en um 40 prósent þeirra eru í 101 Reykjavík, Garðabæ og í Kópavogi. Samtök iðnaðarins telja að stór hluti þeirra íbúða sem eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu séu ekki í takt við eftirspurn eftir ódýrari íbúðum. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Lágt hlutfall nýrra íbúða á ódýrari svæðum
Í niðurstöðum átakshóps ríkisstjórnarinnar um aukið framboð á íbúðum kom fram að óuppfyllt íbúðaþörf á landinu öllu er nú um 5000 til 8000 íbúðir. Mikil uppbygging er hins vegar fyrirhuguð á næstu árum og er áætlað að um 10.000 íbúðir verði byggðar á árunum 2019 til 2021. Gangi þær áætlanir eftir mun óuppfyllt íbúðaþörf verða um 2.000 íbúðir í upphafi árs 2022.
Samkvæmt greiningu Samtaka iðnaðarins eru nú um fimm þúsund íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu. Í samtali við Morgunblaðið bendir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, á að þegar skoðað sé hvar íbúðabygging eigi sér stað þá megi sjá hversu hlutfallslega fáar íbúðir séu í byggingu á ódýrari svæðum. Aftur á móti sé fyrst og fremst þörf fyrir hagkvæmari íbúðir. „Það hefur verið bent á að það þarf íbúðir fyrir yngra fólk sem er að koma inn á markaðinn og fyrir tekjulága og eignalága einstaklinga. Og síðan minni íbúðir fyrir eldra fólk sem vill minnka við sig. Ég fæ ekki séð að þessi þörf birtist í íbúðum í byggingu í Reykjavík,“ segir Sigurður.
Hann gagnrýnir sveitarfélögin fyrir að bregðast ekki hraðar við þörfinni og auka framboð íbúða fyrir tekjulága „Það eru fyrst og fremst pólitískar áherslur sem leiða fram þessa niðurstöðu. Það sýnir vel þennan markaðsbrest að af um 5 þúsund íbúðum sem eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu skuli um þúsund íbúðir vera í byggingu í 101 Reykjavík. Það eru næstum því jafn margar íbúðir í byggingu í póstnúmerinu og í öllum Kópavogi,“ segir Sigurður.
Dregið úr spennu á fasteignamarkaði og færri nýbyggingar seljast
Í nýjasta riti Fjármálastöðugleika segir að það sé farið að draga úr spennu á fasteignamarkaði, og nú sé framboð húsnæðis að aukast umtalsvert á meðan það dregur úr eftirspurn, þar sem kólnað hefur í hagkerfinu eftir mikla uppgangstíma. Samkvæmt tölum Þjóðskrár, sem mælir þróun á fasteignaverði, þá lækkaði fasteignaverð um 1 prósent í febrúar, miðað við sama tíma í fyrra. Útlit er fyrir að fasteignaverð geti lækkað nokkuð, ef það heldur fram sem horfir, ef framboð af húsnæði vex nokkuð á sama tíma og eftirspurn minnkar.
Í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánssjóðs kemur fram að mun færri nýbyggingar hafa selst á höfuðborgarsvæðinu í ár samanborið við sama tímabili í fyrra. Jafnframt hafi hlutfallslega færri nýbyggingar verið seldar á höfuðborgarsvæðinu í febrúar á þessu ári samanborið við mánuðinn á undan. Í febrúar voru 11 prósent viðskipta á höfuðborgarsvæðinu nýbyggingar en 16 prósent viðskipta í janúar. Til samanburðar var hlutfall nýbygginga 17 prósent kaupsamninga í febrúarmánuði í fyrra og í janúar 2018 var hlutfallið 33 prósent. Það sem af er ári hafa í heildina 120 nýbyggingar selst á höfuðborgarsvæðinu en á sama tímabili í fyrra var sá fjöldi um 276.
Meðalupphæð á hvern kaupsamning 54 milljónir króna í mars
Fjöldi þinglýstra kaupsamninga um fasteignir við sýslumannsembættin á höfuðborgarsvæðinu í mars 2019 var 590, samkvæmt tölum Þjóðskrár. Heildarvelta nam 31,9 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning var 54 milljónir króna. Viðskipti með eignir í fjölbýli námu 20,1 milljarði, viðskipti með eignir í sérbýli 8,8 milljörðum og viðskipti með aðrar eignir 3 milljörðum króna.