Landaður afli íslenskra skipa í mars var 118.448 tonn sem er 25 prósent minni afli en í mars 2018. Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar í dag.
Aflasamdrátturinn skýrist nær eingöngu af minni loðnuafla en engin loðna veiddist í mars samanborið við tæp 82 þúsund tonn í mars 2018.
Rúmlega þreföldun í kolmunnaafla nær ekki að vega upp aflabrestinn í loðnu en kolmunnaafli í mars var rúm 64 þúsund tonn. Botnfiskafli nam 52 þúsund tonnum í febrúar og minnkaði um 2 prósent miðað við sama mánuð 2018.
Afli metinn á föstu verðlagi 15,6% minni
Heildarafli á 12 mánaða tímabili frá apríl 2018 til mars 2019 var tæplega 1.306 þúsund tonn sem er aukning um 6 prósent miðað við sama tímabil ári fyrr. Aukningin er vegna meiri botn- og flatfiskafla og samdráttur í uppsjávarafla er minni en vænta má vegna meiri kolmunnaafla.
Afli í mars, metinn á föstu verðlagi, var 15,6 prósent minni en í mars 2018.
Beðið eftir loðnu í mars
Fram kom í frétt Kjarnans í byrjun mars síðastliðins að hringinn í kringum landið hefðu ellefu fiskimjölsverksmiðjur og níu hrognavinnslur með alls um þúsund starfsmenn beðið eftir loðnu.
Útflutningsverðmæti loðnu nam 17,8 milljörðum króna í fyrra. Á þriðja ársfjórðungi síðasta árs nam landsframleiðsla síðustu fjögurra ársfjórðunga 2.766 milljörðum króna og er því um að ræða um 0,6 prósent af landsframleiðslu sem þjóðarbúið verður af, að öllu öðru óbreyttu.