Markaðsráðgjafi á vegum DV reyndi að selja nokkrum íslenskum stjórnmálaflokkum pláss í sérblaði DV um þriðja orkupakkann þar sem þeir gætu kynnt afstöðu sína til málsins.
Verð fyrir heilsíðu í umræddu sérblaði á að vera 70 þúsund krónur án virðisaukaskatts auk þess sem greinin myndi birtast á DV.is.
Kjarninn hefur heimildir fyrir því að pósturinn hafi ekki borist til allra stjórnmálaflokka, en Samfylkingin og Vinstri græn fengu hann hið minnsta. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans hefur hann ekki borist til Pírata.
Í póstinum, sem Kjarninn hefur undir höndum, segir að hægt sé að vinna efnið á tvenna vegu hafi stjórnmálaflokkarnir áhuga á að kaupa sér umfjöllun. Annað hvort myndu þeir sjálfir skrifa það og senda inn eða blaðakona frá DV myndi sjá um að skrifa kynninguna.
Í póstinum stendur, eins og hann var sendur, m.a.: „Þetta verður flott umfjöllun þar sem flokkar gera kynnt sína afstöðu gagnvart 3. Orkupakkans og gert grein fyrir plúsum og mínusum.“
Sá sem er skrifaður fyrir póstinum er markaðsráðgjafi á auglýsingadeild DV, Helgi Fannar.
Á Vísi er haft eftir Einari Þór Sigurðssyni, starfandi ritstjóra DV, að tilboðið sé ekki á vegum ritstjórnar miðilsins. Þar segir Einar Þór að honum finnist sjálfum tilboðið vera „á grensunni.“
Fjármagnað með huldufé
Miklar sviptingar hafa verið innan DV og tengdra miðla miðla undanfarin misseri. Frjáls fjölmiðlun ehf. keypti í haustið 2017 fjölmiðla Pressusamstæðunnar: DV, DV.is, Eyjuna, Pressuna, Bleikt, Birtu, Doktor.is, 433.is og sjónvarpsstöðina ÍNN. ÍNN hefur síðan verið sett í þrot.
Frjáls fjölmiðlun tapaði 43,6 milljónum króna á þeim tæpu fjórum mánuðum sem félagið var starfandi á árinu 2017. Tekjur þess voru 81,4 milljónir króna frá því að félagið hóf starfsemi í september 2017 og fram að áramótum.
Eigandi Frjálsrar fjölmiðlunar er félagið Dalsdalur ehf. Eini skráði eigandi þess er Sigurður G. Guðjónsson lögmaður sem er einnig skráður fyrirsvarsmaður Frjálsrar fjölmiðlunar hjá Fjölmiðlanefnd.
Ekkert liggur fyrir um hvernig kaupin á fjölmiðlafyrirtækinu voru fjármögnuð. Stundin greindi frá því í október í fyrra að félag Sigurðar G. hefði fengið 475 milljóna króna lán frá óþekktum aðilum á árinu 2017 til að kaupa reksturinn og fjármagna hann. Sigurður hefur ekki viljað upplýsa um hver veitti félagi hans lánið.
Um síðustu mánaðarmót sagði Kristjón Kormákur Guðjónsson, sem hafði verið aðalritstjóri DV frá því í desember 2017, upp störfum og réð sig til Hringbrautar.
Framkvæmdastjóri Frjálsrar fjölmiðlunar er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, Karl Garðarsson.