Forstjóri og forseti aðalstjórnar Boeing, Dennis Muilenburg, sendi frá sér ávarp á vefgáttum félagsins í gær, á Facebook og Youtube þar á meðal, þar sem hann segir að Boeing muni vinna að heilindum af því að tryggja að 737 Max vélar félagsins, verði þær öruggustu í flugflota heimsins.
Þá segist hann harma þau óþægindi sem flugfélög og farþegar um allan heim hafa orðið fyrir, vegna kyrrsetningar á Max vélunum, í kjölfar hörmulegra flugslysa í Indónesíu og Eþíópíu, þar sem allir um létust, samtals 346.
Hann ítrekaði það sem hefur komið fram hjá honum áður, að hugurinn væri hjá aðstandendum þeirra sem hefðu látið lífið, og að Boeing myndi gera allt sem hægt væri til að komast til botns í því hvað fór úrskeiðis.
Frumniðurstöður rannsóknarinnar á flugslysinu í Indónesíu, 29. október í fyrra, þegar 737 Max Lion Air hrapaði með þeim afleiðingum að 189 létu lífið, benda til þess að MCAS kerfi hafi brugðist og toga vélina niður, en það kerfi á að vinna gegn ofrisi.
Margt bendir til þess að sambærilegar ástæður hafi verið að baki því þegar 737 Max vél Ethiopian Airlines hrapaði 13. mars síðastliðinn með þeim afleiðingum að 157 létu lífið.
Eins og greint hefur verið frá, meðal annars í fréttaskýringum á vef Kjarnans, þá hefur alþjóðleg kyrrsetning á 737 Max vélum Boeing haft víðtæk áhrif á flugiðnaðinn um allan heim, og gert það að verkum að mörg flugfélög sem voru með Max vélar í notkun, eða höfðu reikna með þeim í flotann, hafa lent í vandræðum með að halda uppi þjónustu eins og leiðakerfi þeirra gera ráð fyrir.
Flugumferðastofnun Bandaríkjanna (FAA) sagðist í yfirlýsingu 16. apríl síðastliðinn telja breytingarnar sem Boeing flugvélaframleiðandinn leggur til að gerðar verði á Boeing 737 Max farþegaþotunum séu „viðeigandi“.
Búist er við því að FAA muni leggja blessun sína yfir aðgerðir Boeing, áður en langt um líður, og þá verður mögulegt að notast við Max vélar í Bandaríkjunum. Önnur flugmálayfirvöld hafa þó ekki gefið grænt ljós á notkun Max véla, og óvíst er hvenær kyrrsetningu lýkur og hægt verður að nota vélarnar aftur. Ljóst er að það verður ekki gert fyrr en rannsóknum á flugslyslunum lýkur, og lokaniðurstöður verða birtar.
Á meðan þessi staða er uppi hafa flugfélög brugðist við með því að fella niður flug og leigja vélar í stað Max vélanna. Mikil eftirspurn hefur myndast eftir leiguvélum, og hefur verðið farið hækkandi.
Icelandair notast við Boeing vélar og hafa þrjár Max vélar verið teknar úr umferð í flota félagsins. Félagið hefur veðjað á að Max vélarnar til framtíðar litið, og miðast áætlanir félagsins til lengri tíma litið við það.