Á síðustu árum hefur sala á neftóbaki framleiddu af ÁTVR aukist með hverju ári. Salan jókst um 19 prósent í fyrra og voru alls um 45 tonn af neftóbaki seld. Aftur á móti dróst salan saman á reyktóbaki um 10 prósent, á vindlum um 7 prósent og sígarettum um 3 prósent. Alls námu tekjur af tóbakssölu 9.4 milljörðum króna í fyrra og jókst um 2 prósent milli ára. Þetta kemur fram í ársreikningi ÁTVR.
Sala á neftóbaki stóraukist á undanförnum árum
Um aldarmótin var árleg sala af neftóbaki ríflega 10 tonn en síðan þá hefur salan aukist jafnt og þétt. Eina undantekningin er að salan minnkaði árin 2012 og 2013 áður en hún jókst á ný. ÁTVR segir að salan hafi dregist lítillega saman þessi ár eftir að tóbaksgjald á neftóbak var tvöfaldað. Salan fór niður í 27,6 tonn árið 2013 en hefur svo aukist mikið á ný. Síðan 2016 hafa verið sett sölumet á hverju ári í sölu neftóbaks og í fyrra seldust tæplega 45 tonn af neftóbaki.
Í janúar 2002 var fínkorna munn- og neftóbak bannað með lögum á Íslandi. Kannanir sýna hins vegar að grófkorna neftóbak sem ÁTVR framleiðir og selur er í yfirgnæfandi tilvika tekið í munn og að notendum þess séu að stórum hluta ungt fólk. Í ársskýrslu ÁTVR fyrir árið 2016 kom fram ap stofnunin treysti sér ekki lengur til að greina á milli munntóbaks og neftóbaks og hafi leitað leiðbeininga hjá heilbrigðisráðuneytinu um hvernig eigi að greina á milli. En sala á munntóbaki er ólögleg en sala á neftóbaki lögleg.
Tóbaksdollan nú á rúmar þrjú þúsund krónur
Þessi aukna neysla á neftóbaki hefur skilað auknum tekjum í vasa hins opinbera svo um munar, bæði vegna hækkunar á tóbaksgjaldi og stóraukinnar eftirspurnar. Verðstýring hefur þótt áhrifaríkasta leiðin til að draga úr tóbaksnotkun og hefur verð á dollu af neftóbaki hækkað um nokkur hundruð prósent á áratug með það fyrir augum að reyna að sporna við notkun þess í vör meðal ungs fólks. Tóbaksgjald á neftóbak hækkaði til að mynda um 100 prósent 1. janúar 2013 og var hækkað aftur árið 2017. Neftóbaksdolla kostar í dag um 3.300 krónur í matvöruverslunum Krónunnar.
Í tóbakskönnun Gallup frá 2018 kemur fram 35 prósent þeirra sem taka í nefið eru að staðaldri skemur en tvær vikur að klára venjulega tóbaksdós en 65 prósent svarenda sögðust vera lengur en tvær vikur. Jafnframt kom fram í könnuninni að þeir sem taka í nefið hafa tekið það að staðaldri í 1 til 5 ár, 26 prósent skemur en í ár og 26 prósent í sex ár eða lengur.
Í könnun frá því í fyrra um notkun tóbaks meðal Íslendinga á vegum Landlæknis kemur fram að dagleg notkun tóbak í vör hefur dregist saman hjá yngsta aldurshópi karla, 18 til 24 ára, eða úr 23 prósent árið 2015 í 14 prósent árið 2018. Á hinn bóginn jókst dagleg notkun í aldurshópnum 25 til 34 ára karla úr 7 prósent 2015 í 22 prósent árið 2018.
Þá hefur það vakið athygli að samkvæmt könnuninni eru konur farnar að taka í auknum mæli tóbak í vör eða um 3 prósent kvenna taka tóbak í vör í aldurshópnum 18 til 24 ára og rúmlega 2 prósent meðal 25 til 34 ára.
Sala á sterku áfengi jókst um 20 prósent
Á árinu 2018 komu rétt tæplega 5 milljónir viðskiptavina í Vínbúðir ÁTVR. Í ársreikningi ÁTVR kemur fram að hagnaður fyrirtækisins dróst saman á milli ára og var 1,111 milljónir króna árið 2018 samanborið við 1367 milljónir árið 2017.
Tekjur ÁTVR af sölu áfengis voru 25.8 milljarðar króna án vasks í fyrra og hækkuðu um 3,2 prósent á milli ára. Sala á sterku áfengi jókst um 20 prósent en sala á léttvíni dróst saman um 3,3 prósent, þá jókst sala á bjór um 0,4 prósent. ÁTVR er alfarið í eigu íslenska ríkisins og var arður til ríkisins um milljarður í fyrra.