Í skýrslu Robert Mueller, sérstaks saksóknara, sem falið var að rannsaka möguleg ólögmæt afskipti Rússa í bandarísk stjórnmál í forsetakosningunum 2016, kemur fram að saksóknarinn og teymi hans taldi að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefði átt aðkomu að tíu atvikum sem gætu flokkast sem mögulegar tilraunir til að hindra framgang réttvísinnar vegna rannsóknarinnar.
Þetta kom fram á blaðamannafundi William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, í dag en skýrsla Mueller verður birt að hluta í dag. Barr sagði að hinn sérstaki saksóknari hefði hins vegar ekki getað sýnt fram á spilltar hvatir forsetans við framkvæmd þeirra atvika, sem væri nauðsynlegt til að atvikin teljist glæpir.
Á blaðamannafundinum kom skýrt fram að Rússar hefðu skipt sér að framkvæmd kosninganna en engir Bandaríkjamenn aðstoðuðu vitandi við það athæfi.
Donald Trump sendi frá sér tíst á Twitter nánast á sama tíma og blaðamannafundurinn hófst þar sem hann kom á framfæri þeim skilaboðum sem hann telur að birting skýrslunnar eigi að fela í sér.
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) April 18, 2019
Hvíta húsið hafði fengið að sjá hluta skýrslunnar áður en að hún verður afhent þingmönnum bandaríska þingsins. Það vakti mikla reiði á meðal Demókrata sem óttuðust að Trump-stjórnin myndi gera tilraunir til að grafa undan skýrslunni.
Á blaðamannafundinum sagði Barr hins vegar að Hvíta húsið hefði ekki óskað eftir því að neitt yrði fjarlægt eða hulið í skýrslunni áður en hún yrði afhent þingmönnum.
Um mánuður er liðinn frá því að Mueller skilaði skýrslu sinni til Barr. Sá síðarnefndi birti svo fjögurra blaðsíðna úrdrátt úr henni 24. mars síðastliðinn þar greint var frá því að Mueller hafi komist að þeirri niðurstöðu að framboð Donalds Trump Bandaríkjaforseta hafi ekki átt í óeðlilegum eða ólögmætum samskiptum við rússnesk stjórnvöld í aðdraganda bandarísku forsetakosninganna 2016.
Í úrdrættinum kom líka fram að Barr teldi ekki ástæðu að ákæra fyrir að hindra framgang réttvísinnar.
Hægt er að fylgjast með framvindu mála á heimasíðu Bloomberg.