Fyrsta þætti áttundu þáttaraðar Game of Thrones, sem sýndir eru á Stöð 2, hafði verið hlaðið niður samtals 6.723 sinnum á niðurhalssíðunni deildu.net í gær en þátturinn var fyrst sýndur um síðustu helgi. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Enn fremur kemur fram að fyrstu þremur þáttunum af Atvinnumönnunum okkar, sjónvarpsþáttum Stöðvar 2 þar sem Auðunn Blöndal talar við íslenska atvinnumenn í íþróttum, hafði verið hlaðið niður samtals 9.949 sinnum.
Hallgrímur Kristinsson, stjórnarformaður Félags rétthafa í sjónvarpi og kvikmyndum (FRÍSK), segir í samtali við Fréttablaðið að slíkt niðurhal sé óþolandi. „Það segir sig sjálft í svona litlu samfélagi eins og okkar að þetta eru svakalegar tölur.“ Hallgrímur segir það verst þegar um íslenska framleiðslu er að ræða. „Efni sem unnið er af Íslendingum fyrir íslenska peninga. Þá er það auðvitað mikill skaði.“
Síðan fengið að vera óáreitt í mörg ár
Niðurhal sem þetta heftir framleiðslu á öðru íslensku efni, að mati Hallgríms. Þegar fjöldi sem þessi sækir íslenskt efni og borgar ekki fyrir það fást minni tekjur og því er minna fjármagn til svo hægt sé að framleiða meira efni. „Þessi síða er náttúrulega, eins og alþjóð veit, rekin af Íslendingum og hefur verið sérstaklega nýtt af Íslendingum til að sækja sér íslenskt efni. Það væri auðvitað ósk okkar að lögreglan myndi taka sig til og rannsaka þetta af einhverju viti,“ segir Hallgrímur.
Hann segir jafnframt að síðan hafi fengið að vera óáreitt í mörg ár. „Hún hefur verið kærð en lögregla hefur aldrei tekið af skarið og rannsakað þetta af neinu viti. Við höfum, því miður, ekki heimildir eða tök á að rannsaka svona. Það er eingöngu lögregla sem gerir það.“ Héraðsdómur hefur sett lögbann á deildu.net en síðan er enn aðgengileg og tiltölulega lítið vandamál að nálgast þannig efni án þess að þurfa að greiða fyrir það. Hallgrímur segir við Fréttablaðið að þetta sé gömul saga og ný.
Niðurhal á Game of Thrones er síður en svo ný af nálinni en fram kom til að mynda í fréttum árið 2015 að sjónvarpsþáttaröðin hefði trónað efst á vafasömum lista yfir mest niðurhalaðasta sjónvarpsefni sögunnar.