Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, telur að hagsmunir fiskeldisfyrirtækja – sem og hagsmunir landeigenda – stangist á við náttúruvernd. Hann spyr jafnframt hvernig Íslendingar ætli að láta þetta hvort tveggja ganga upp en hann segir þetta vera mikið hagsmunamál – og gríðarlegt náttúruverndarmál. Þetta kom fram í máli ráðherrans í viðtali við Kjarnann um páskahelgina.
Að hans mati er jafnframt mikilvægt að fara varlega í þessum efnum. „Ég sé þetta þannig fyrir mér að fiskeldið þurfi að þróast á næstu 10 til 15 árum í þá átt að ekki verði um neina erfðablöndum að ræða. Það kallar á breyttar aðferðir við laxeldið,“ segir hann.
„Og ég myndi vilja sjá þetta þannig að atvinnuveginum væri gefinn ákveðinn tímarammi til að aðlaga sig að þessum breytingum. Og á sama tíma væru hvatar fyrir fyrirtækin að þróast í þessa átt. Þetta er stóra myndin í þessu,“ segir Guðmundur Ingi.
Fiskeldislöggjöfin er ekki á borði ráðherrans en að hans mati þarf að nálgast þau mál með þessum hætti. „Mér finnst það líka samræmast við stjórnarsáttmálann sem kveður á um að þróa eigi fiskeldi með tilliti til sem minnstrar áhættu fyrir líffræðilegan fjölbreytileika villtra stofna.“
Fiskeldið ógn við laxastofna
Guðmundur Ingi segir enn fremur að villtir laxastofnar séu gríðarlega verðmæt auðlind hér á landi. „Reyndar eru ferskvatnsfiskar á Íslandi mjög merkileg auðlind vegna þess að mjög fáar tegundir eru hér en aftur á móti eru búsvæðin fjölbreytt. Sem þýðir það að sumar af þessum tegundum hafa þróast með ótrúlegum hætti á einungis þessum 10.000 árum frá því að ísöld lauk og þær námu hér land,“ segir hann en sem dæmi um þetta nefnir hann fisk í Þingvallavatni þar sem fjögur afbrigði eru til af bleikju vegna þess að fiskurinn hefur þróast genatískt að mismunandi aðstæðum, fæðu og búsvæðum.
„Laxinn okkar er líka merkilegur en mismunandi stofnar eru eftir landsvæðum. Þannig að erfða- og líffræðilega er laxinn okkar mikilvægur, bæði út frá náttúrunni og náttúruvernd. Og laxastofnum – eða Atlantshafslaxinum – þessari tegund sem finnst hér, hefur víða hnignað. Bæði í Evrópu og á austurströnd Ameríku. Ekki alls staðar, en víða. Á Íslandi hefur tekist ágætlega að varðveita og viðhalda þeim vegna þess að við erum með ágætiskerfi til þess. En þá kemur inn þessi ógn sem fiskeldið er,“ segir hann.