„Ég finn alveg fyrir vonleysi rétt eins og hver annar, en líka fyrir von.“ Þetta segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, í viðtali við Kjarnann þegar hann er inntur eftir persónulegum viðbrögðum við svartri skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar í heiminum sem kom út í október síðastliðnum. Hann segir í þessu samhengi auðvitað vera einungis mannlegur.
Í skýrslunni kemur fram að ríki heims hafi aldrei átt jafn langt í land með að uppfylla markmið sín í loftslagsmálum. Magn gróðurhúsalofttegunda heldur áfram að aukast í andrúmsloftinu og hitastig jarðar heldur áfram að hækka. Skýrslan sýnir fram á að ríki heims hafa ekki gripið til nægilegra ráðstafana til þess að markmiðið náist um að hiti á jörðinni fari ekki yfir 1,5 gráður að jafnaði.
„Ég er umhverfisfræðimenntaður og þá gengur maður í gegnum einn stóran sálfræðitíma. Vegna þess að þú byrjar að læra um vandamálin og það tekur langan tíma, því þau eru mörg og víðfeðm. Svo lærir maður hvers konar lausnir og stjórntæki við höfum til þess að takast á við þessi vandamál. Maður má ekki gefast upp áður en komið er í þann hluta. Og ég er á þeim stað núna að vinna við að hugsa í lausnum og framkvæma þær. En ég tel mjög mikilvægt að maður geri sér grein fyrir umfangi viðfangsefnisins – hvort sem þú vilt kalla það vandamál eða áskorun,“ segir Guðmundur Ingi.
Í skýrslunni segir enn fremur að ríki heims þurfi að þrefalda aðgerðir sínar til þess að hægt verði að halda hitastigi á jörðinni innan við tvær gráður, miðað við stöðuna nú. Til þess að hitastigið fari ekki yfir 1,5 gráður þurfi ríkin að auka þær fimmfalt.
Þrátt fyrir þetta þá segist ráðherrann vera þannig gerður að hann líti svo á að verkefnin séu spennandi og skemmtileg og trúir hann að þau að muni færa Íslendinga í rétta átt.
Margt jákvætt verið að gera
Guðmundur Ingi segir jafnframt að margt jákvætt sé gert í loftslagsmálunum – bæði innanlands og erlendis – en engu að síður sé þetta risavaxið verkefni. „Það er ekkert annað í boði en að vera jákvæður og hrinda verkefnunum í framkvæmd hverju af öðru. Það er sú vegferð sem við byrjuðum á í haust og hún heldur áfram. Ég get alveg sagt það að ég var búinn að bíða í mörg ár eftir að fá fjármagnaða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum en hún hefur aldrei komið fram áður. Þannig að það eitt og sér er ákveðinn sigur fyrir umhverfið okkar.“
Hann telur að auðvitað hefði verið æskilegt að byrjað hefði verið fyrr. „Það sem er þó svo mikilvægt er að við náum einhvern veginn að koma þessum málum á þann stað að ekki komi bakslag og allt verði eins og áður var,“ segir hann.
Loftslagsskýrslan hristi upp í fólki
Þegar Guðmundur Ingi er spurður hvort þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur kynnt í loftslagsmálum séu nægar þá svarar hann um hæl og segir að sá pakki hafi verið settur fram sem fyrsta skref. „Það var alveg ljóst að við tæki nánari greining á þeim aðgerðum sem þar eru lagðar fram. Og þetta var sett í samráðsgátt til að athuga hvað fólki fyndist um þær,“ segir hann.
Nú sé unnið úr þessum umsögnum og tekin inn atriði eins og fyrrnefnd skýrsla milliríkjanefndar SÞ um loftslagsmál. Í því samhengi bendir hann á að skýrslan hafi gengið lengra en gengur og gerist. „Hún hristi upp í fólki og gerði það móttækilegra,“ segir hann en ráðherrann telur að margir hafi sýnt loftslagsmálum meiri áhuga og athygli síðan skýrslan kom út.
Það sem bíður Íslendinga alþjóðlega sé í fyrsta lagi að fara inn í sameiginlegar aðgerðir Noregs og Evrópusambandsins. „Einfaldlega vegna þess að Evrópusambandið hefur verið leiðandi í þessum málum eins og Norðmenn. Og með því að semja við sambandið að vera með í þeirra sameiginlega markmiði um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þá teljum við okkur frekar geta verið með þeim sem mest gera. Það veitir okkur aðhald og aðstoð,“ segir hann og bendir á smæð Íslands í þessu samhengi. „Þá tökum við upp ákveðnar reglugerðir frá þeim sem hjálpa okkur til að þess að halda utan um þetta allt saman. Ég tel það mjög mikilvægt,“ segir Guðmundur Ingi.