Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Arion banka, mun taka tímabundið við sem bankastjóri bankans frá 1. maí næstkomandi, þegar Höskuldur Ólafsson lætur af störfum eftir níu ára starf. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka til Kauphallar Íslands.
Þar segir einnig að undirbúningur að ráðningu nýs bankastjóra sé hafinn. Stefán mun gegna starfinu þar til að slíkur verður ráðinn.
Miklar hræringar hafa verið innan Arion banka undanfarnar vikur og mánuði. Höskuldurtilkynnti skyndilega að hann væri að hætta 12. apríl síðastliðinn. Höskuldur hefur neitað því að hann hafi verið rekinn eða að það hafi verið þrýst á hann að hætta. Arion banki hefur verið í sviðsljósinu vegna þess að þrír stórir viðskiptavinir sem bankinn hafði lánað fé höfðu ratað í þrot á skömmum tíma með tilheyrandi útlánatöpum. Um er að ræða United Silicon, Primera Air og WOW air.
Í vikunni áður en Höskuldur tilkynnti um afsögn sína ákvað Kaupþing ehf., stærsti eigandi bankans, að selja tíu prósent hlut í honum í lokuðu útboði. Stoðir, sem einu sinni hétu FL Group, keyptu stóran hluta af því hlutafé auk þess sem Íslandsbanki keypti umtalsverðan hlut fyrir viðskiptavini sína í framvirkum samningum.
Til viðbótar við þessi tíu prósent seldi Kaupþing ehf., félag utan um eftirstandandi eignir þrotabús bankans sem féll með látum í október 2008, einnig fimm prósent hlut til vogunarsjóðsins Taconic Capital á 6,5 milljarða króna.