Mjólkurneysla landsmanna hefur farið minnkandi á síðustu árum og hefur heildarsala á drykkjarmjólk dregist saman um 7,9 milljónir lítra eða 25 prósent frá árinu 2010. Nýmjólk, léttmjólk, undanrenna og fjörmjólk eru flokkaðar sem drykkjarmjólk. Í fyrra nam heildarsalan á drykkjarmjólk 23,8 milljón lítrum og dróst saman um 2,8 prósent á milli ára. Þetta kemur fram í ársreikningi Sambands afurðastöðva í mjólkuriðnaði.
Sala á mjólkurvörum dróst saman í fjórum flokkum
Alls dróst heildarsala mjólkurvara frá aðildarfélögum SAM saman um 2,2 prósent frá árinu 2017 til 2018 eða um 1290 tonn, samkvæmt ársreikningi samtakanna. Aðildarfélög SAM eru Auðhumla og Kaupfélag Skagfirðinga sem eiga Mjólkursamsöluna og rekur KS mjólkursamlag KS á Sauðarárkróki. Samdráttur var í öllum vöruflokkum nema rjóma og dufti.
Alls hefur sala á rjóma, dufti, ostum og viðbiti aukist töluvert frá árinu 2010 en í heildina hefur sala á mjólkurvörum dregist saman um 4,1 prósent á síðustu 9 árum. Sala á rjóma hefur aukist hvað mest eða um 30,4 prósent frá árinu 2010 og jókst um 7,1 prósent í fyrra. Sala skyrtegunda dróst saman um 169 tonn í fyrra og sala á osti um 102 tonn í fyrra.
6,5 milljónir í styrki fyrir nýsköpun með mjólk
Árið 2017 veitti Auðhumla þrjá styrki til frumkvöðulsstarfs þar sem mjólk kemur við sögu sem hráefni. Einn styrkurinn nam þremur milljónum krónum og rann til Biobú vegna verkefnis sem stuðlar að nýsköpun og aukinni nýtingu á lífrænni mysu sem í dag fellur til við framleiðslu mjólkurafurða. Annar þriggja milljóna styrkur var veittur verkefninu Jökla, sem er íslenskur mjólkurlíkjör en aldrei áður hefur verið framleiddur áfengur drykkur úr íslenskri mjólk. Þriðji styrkurinn rann til forverkefnis um þróun heilsuvöru úr broddmjólk. Matís sér um utanhald verkefnanna.
MS dæmt til að greiða sekt upp á 480 milljónir
Í maí á síðasta ári var Mjólkursamsölunni gert að greiða sekt að fjárhæð alls 480 milljónir króna vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu í Héraðsdóm. MS seldi keppinautum sínum grundvallarhráefni til framleiðslu á mjólkurvörum, það er að segja hrámjólk, á hærra verði en MS sjálft og tengdir aðilar, sem eru Kaupfélag Skagfirðinga og dótturfélag þess, þurftu að greiða.