Samtök atvinnulífsins hafa samþykkt kjarasamninga við verkafólk og verslunarmenn fyrir tímabilið 2019 til 2022 sem skrifað var undir 3. apríl síðastliðinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SA.
Rafræn atkvæðagreiðsla fór fram um samingana meðal aðildarfyrirtækja SA. Þeir voru samþykktir með yfirgnæfandi meirihluta eða 98 prósent greiddra atkvæða. Kosningaþátttaka var góð eða 74 prósent.
Atkvæðagreiðslan er í samræmi við samþykktir samtakanna, en í þeim segir að heildarkjarasamningar og stefnumarkandi samningar skuli bornir undir atkvæði félagsmanna í leynilegri atkvæðagreiðslu. Hún hófst 16. apríl og lauk klukkan 11:00 í dag. Greidd voru atkvæði um samningana í einu á grundvelli atkvæðavægis aðildarfyrirtækja SA.
Auglýsing