Skuldabréfaeigendur vilja láta reyna á ábyrgðartryggingar stjórnendanna WOW air á grundvelli þess að þeir hafi ekki fengið fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsstöðu félagsins og framkvæmd skuldabréfaútboðs flugfélagsins síðasta haust. Talið er að minna en helmingur þeirrar fjárhæðar sem safnaðist í skuldabréfaútboðinu hafi verið nýtt fjármagn. Yfirdráttarláni WOW air hjá Arion banka var til að mynda breytt í skuldabréf að sömu fjárhæð í útboðinu en sú skuldbreyting nam nærri tíu prósentum af heildarstærð skuldabréfaútgáfunnar. Frá þessu er greint í Markaðinum í dag.
Skuldbreyttu 550 milljóna yfirdráttarláni WOW
Samkvæmt heimildum Markaðarins hefur fulltrúi skuldabréfaeigenda óskað eftir því að skiptastjórar þrotabús WOW air veiti þeim upplýsingar um skilmála ábyrgðartrygginga stjórnenda flugfélagsins. Stjórnendurnir kunni að hafa bakað sér persónulega skaðabótaskyldu á grundvelli þess að þeir hafi ekki veitt fullnægjandi upplýsingar um skuldabréfaúboðið síðasta haust. Við þeirri beiðni hafi skiptastjórarnir hins vegar ekki enn getað orðið að þar sem erlent tryggingafélag, sem WOW air hafði keypt stjórnendatryggingar af, hafi lagst gegn því að afhenda þau gögn sem óskað er eftir.
Skiptastjórar þrotabúsins skoða jafnframt hvort að efni sé til riftunar á því samkomulagi sem Arion banki og WOW air gerðu með sér í fyrra um að breyta fimm milljóna dala yfirdráttarláni í skuldabréf að sömu fjárhæð í flugfélaginu í skuldabréfaútboðinu. Bankinn lagði félaginu því ekki til neitt nýtt fjármagn heldur var um að ræða skuldbreytingu á kröfum. Ráðgjafafyrirtækið Deloitte hefur verið fengið þrotabúinu til aðstoðar til að kanna hvort að rifta eigi umræddu samkomulagi en ekkert hefur verið ákveðið í þeim efnum.
Talið er að minna en helmingur hafi í reynd verið nýtt fjármagn
Skuldbreytingin lánsins frá Arion banka nam tæplega tíu prósentum af stærð skuldabréfaútgáfu WOW air en talið er að innan við helmingur þeirra 50 milljón evra sem söfnuðust í útboðinu var nýtt fjármagn en á þeim tíma var lausafjárstaða flugfélagsins afar slæm. Markaðurinn greinir frá því að margir þeirra fjárfesta sem lögðu félaginu til nýtt fjármagn séu afar óánægðir en félögin hefðu líklegast ekki lagt flugfélaginu til fjármagn ef þeim hefði verið kunnugt um að stærstur hluti fjárhæðarinnar sem safnaðist í útboðinu hafði verið umbreyting á kröfum í skuldabréf . Upplýsingar um slíkt hafi ekki legið fyrir þegar fjárfestakynningar voru haldnar eða þegar niðurstöður útboðsins voru kunngjörðar.