Aukin sjálfvirkni í atvinnulífi mun þurrka út allt að helming starfa á næstu 20 árum og reynda á innviði samfélaga með fordæmalausum hætti.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu OECD, en til hennar er vitnað í umfjöllun Bloomberg. Þar segir að þróun sem nú sé að eiga sér stað, þegar kemur að sjálfvirkni, meðal annars með notkun gervigreindar, muni breyta í grundvallaratriðum hvernig gangverk framleiðslu gengur fyrir sig.
Stefano Scarpetta, framkvæmdastjóri málefna vinnumarkaðar hjá OECD, segir í viðtali við Bloomberg að þjóðir heimsins þurfi að bregðast við með mun meira hraða heldur en nú þekkist, til að geta aðlagað samfélögin að breyttu landslagi þegar kemur að atvinnumarkaðnum. Störf muni hverfa, önnur koma í staðinn og mörg atriði sem snúi að menntun starfsfólks á vinnumarkaði þurfi að breytast.
Samkvæmt skýrslu OECD er það ekki síst staða ungs fólks og kvenna í láglaunastörfum sem er viðkvæm, en talið er að aukin sjálfvirkni geti haft verulega mikil og hröð áhrif á atvinnumöguleika margra sem þessum hópum tilheyra á næstu 10 til 20 árum. Til að ekki komi til mikils atvinnuleysis og erfiðleika, þurfi að vinna að því að auka sveigjanleika vinnuafls með aukinni menntun og færni á þeim sviðum sem ný tækni og sjálfvirkni geti opnað á ný tækifæri.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur sagt að í ljósi fjórðu iðnbyltingarinnar og þeirrar sjálfvirknivæðingar sem sé fyrir dyrum þá þurfi Íslands að takast á við þær áskoranir að fjölga iðn- og tæknimenntuðu fólki.
Þetta kom meðal annars fram í viðtali við hann Hringbraut í mars síðastliðnum.
Hún telur að sjálfvirknivæðingin verði góð fyrir fámenna þjóð eins og Ísland. „Það sem okkur hefur oftast skort er vinnuafl. En núna þegar við erum komin með þessa tækni og við erum að fjárfesta í henni og við erum með mannauðinn þá á okkur að vegna vel á næstu árum. En þá þurfum við að hafa öflugt menntakerfi til að búa til þessa þekkingu. Og þess vegna er ég að segja að grunnurinn að þessu öllu eru kennararnir í landinu,“ sagði Lilja.