Atvinnuþáttaka í mars var 1,9 prósent meira í mars en í febrúar og var í heildina 82,7 prósent. Atvinnuleysi lækkaði um 0,3 prósent á milli mánaða og er nú 2,9 prósent. Þetta kemur fram í árstíðaleiðréttum tölum Hagstofunnar. Samanburður á mars 2019 og 2018 sýnir að starfandi fólki fjölgaði um fjögur þúsund og lækkaði hlutfallið um 0,1 prósent. Atvinnulausir í mars síðastliðnum voru aftur á móti 1400 fleiri en sama mánuð í fyrra.
Sé hins vegar litið til seinustu sex mánuða lækkaði hlutfall starfandi á vinnumarkaði lítillega og atvinnuleysi jókst. Alls eru nú sex þúsund einstaklingar atvinnulausir og eru áberandi fleiri karlar atvinnulausir en konur. 3900 karlar voru atvinnulausir í mars, á móti 2100 konum. Á móti kemur að tæplega fjórtán þúsund fleiri karlar á vinnumarkaði á Íslandi en konur. Alls eru tæplega 210 þúsund einstaklingar á íslenskum vinnumarkaði í dag.
Áhrif af falli WOW Air ekki komin fram
Eftir að WOW Air varð gjaldþrota hefur verið bent á að atvinnuleysi gæti aukist og virkjaði Vinnumálastofnun til að mynda viðbragðsteymi til að þjónusta það fólk sem missti starf sitt við fall félagsins. Þá hefur einnig verið bent á að störf hjá fyrirtækjum sem þjónustuðu WOW Air væru í hættu, auk þess sem viðbúið væri að störfum gæti fækkað í ferðaþjónustunni.
Þessar tölur Hagstofunnar ná hinsvegar einungis fram til mars og því koma áhrifin af falli WOW Air ekki fram í þeim, en Unnur Sverrisdóttir sagði í viðtali við Ríkisútvarpið að óttast væri að á milli eitt til tvö þúsund gætu misst vinnuna. Kjarninn greindi frá því nýverið að greiningarfyrirtækið Analytica tiltæki að óvissan í ferðaþjónustunni væri meðal þeirra þátta sem helst ógnuðu hagvexti á Íslandi.
Atvinnuþáttaka mest á Íslandi
Samkvæmt tölum OECD frá lok árs 2018 var hlutfall einstaklinga á vinnumarkaði hæst á Íslandi af löndum OECD ríkjanna en næsta ríki á eftir Íslandi var Sviss. Þá var Ísland með langmestu atvinnuþátttökuna af Norðurlöndunum en samkvæmt fyrrnefndum tölum OECD var atvinnuþátttaka rúmlega sjö prósentum meiri á Íslandi en í Svíþjóð, Danmörku og Noregi, og tólf prósentustigum meiri en í Finnlandi.