Lögmaður fjögurra þingmanna Miðflokksins, sem leituðu til Persónuverndar vegna Klaustursmálsins, hefur lagt fram kröfu um að fá upplýsingar frá fjármálafyrirtækjum um greiðslur inn á reikning Báru Halldórsdóttur á mánaðartímabilinu 15. nóvember til 15. desember. Auk þess er farið fram á frekari vöktunarefni úr öryggismyndavélum og upplýsingum frá fjarskiptafyrirtækjum um símtöl og smáskilaboð til og frá Báru. Frá þessu er greint á RÚV.
Fara einnig fram á efni úr öryggismyndavélum og upplýsingum frá fjarskiptafyrirtækjum
Þingmennirnir fjórir eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir og Bergþór Ólason. Bára Halldórsdóttur tók upp samræður þingmannanna á Klausturbarnum þann 20. nóvember síðastliðinn. Persónuvernd hefur haft erindi þingmanna til umfjöllunar síðan í desember. Þá sendi lögmaður fjögurra þingmanna Miðflokksins stofnuninni bréf þar sem þess var krafist að rannsakað yrði hver hefði staðið að upptökunni á Klaustri. Málið hefur hins vegar verið í bið á meðan þingmenn Miðflokksins fóru með málið fyrir Héraðsdóm og síðar Landsrétt þar sem kröfu þeirra var síðan hafnað.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, staðfesti í samtali við fréttastofu RÚV að lögmaður fjórmenninga hafi nú lagt fram kröfu til Persónuverndar um aukna gagnaöflun í málinu. Krafan snýst um frekara vöktunarefni úr öryggismyndavélum Klausturs og Kvosarinnar Downtown Hotels rétt fyrir og eftir að Bára sat þar sem sem og upplýsingum frá fjarskiptafyrirtækjum um smáskilaboð og símtöl til og frá Báru á tveggja daga tímabili. Enn fremur er þess krafist að fá upplýsingar frá fjármálafyrirtækjum um greiðslur inn á reikning Báru á tímabilinu 15. nóvember til 15. desember.
Áhugavert að bera saman greiðslur þingmannanna við Báru
Bára segir í samtali við Vísir um málið að hún hafi ekki nokkrar áhyggjur. „Þeir geta haldið fund, komið og sýnt sínar greiðslur og ég mínar. Það verður mjög áhugaverður samanburður,“ segir Bára. Hún segir jafnframt að hún telji að erindi þingmannanna tengist mögulega undirbúningi þeirra á einkamáli sem þeir ætli að höfða. Bára segist þó löngu hætt að skilja hvernig þingmennirnir hugsi.
Krafan verður afgreidd á stjórnarfundi Persónuverndar á mánudaginn næsta og má gera ráð fyrir niðurstaðan verði birt á þriðjudag.