„Rannsókn okkar á afgreiðslutímunum laut að því að WOW air fékk ekki jafn góða afgreiðslutíma og Icelandair og fyrirkomulaginu sem er á Keflavíkurflugvelli í úthlutuninni sem byggir svolítið á hefðarreglum. Ef þú átt einhvers slott þá getur þú haldið þeim.“
Þetta sagði Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, um rannsókn sem eftirlitið framkvæmdi á stöðu mála í fluggeiranum á sínum tíma í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni.
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Samkeppniseftirlitið skilaði 197 blaðsíðna áliti til Samgöngustofu vegna fyrirkomulags við úthlutun afgreiðslutíma til flugfélaga á Keflavíkurflugvelli í október 2015.
Páll segir að niðurstaða eftirlitsins í því máli hafi verið að „beina ákveðnum tilmælum til stjórnvalda til þess að tryggja að það ættu fleiri séns en stóri aðilinn Icelandair sem situr fyrir, þegar úthlutað er nýjum afgreiðslutímum.“
Til dæmis hafi ýmislegt í starfsemi Keflavíkurflugvallar verið skoðað, meðal annars flugafgreiðsla og bílastæðin í kringum flugvöllinn. „Sumt af því er í gangi enn þá.“