Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hafa sett af stað stýrihóp til að hefja formlegar viðræður um næstu skref í uppbyggingu samganga á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2033. Markmið viðræðanna er að móta sameiginlega sýn um fjármögn 102 milljarða fjárfestingaráætlunar í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.
Framkvæmdir upp á rúma 100 milljarða
Í viljayfirlýsingu frá 21. september 2018 lýsti samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu yfir vilja til að hefja viðræður um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Settur var á fót verkefnishópur til að leiða þessar viðræður og skilaði hópurinn af sér skýrslu með tillögum að framkvæmdum á stofnvegum, innviðum Borgarlínu og hjólreiða til næstu 15 ár.
Sigurður Ingi sagði í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í byrjun apríl að vinna starfshópurinn snerist annars vegar um að fullkanna allar fjármögnunarleiðir og ná samstöðu milli ríkis og sveitarfélaga um þær leiðir sem eigi að fara. „Við erum að tala um framkvæmdarpakka eða framkvæmdir sem eru 102-105 milljarðar á að lágmarki 15 árum. Myndu hefjast 2021. Þannig að þetta eru kannski rúmir sjö milljarðar á ári,“ sagði Sigurður Ingi.
Sigurður Ingi sagði jafnframt í viðtalinu að ein þeirra sviðsmynda sem skoðuð er af verkefnahópnum sé að setja upp gjaldtöku til að stýra umferð inn á ákveðin svæði í höfuðborginni, til dæmis inn í miðborg hennar. „Það er ein sviðsmyndin sem við erum að vinna eftir og munum gera í samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Í þeim tilgangi að ná fram þessum markmiðum um öruggari og skilvirkari umferð en líka þessum loftlagsmarkmiðum okkar um betri loftgæði. Við vitum að hér í Reykjavík er illu heilli oft á tíðum bara ekki nógu gott ástand hvað varðar loftgæði og við þurfum að gera eitthvað í því og umferðin er oft á tíðum stærsti þátturinn þar.“
Stýrihópurinn á skila tillögum fyrir lok maí
Stýrihópur er skipaður af forsætisráðherra, samgöngur- og sveitastjórnarráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og formanni og varaformanni stjórnar SSH og borgarstjóra Reykjavíkur. Stýrihópuinn á meðal annars að vinna tillögur út frá skýrslu verkefnishópsins og fyrirliggjandi hugmyndum um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Hópurinn á að skila tillögum fyrir lok maí 2019, þar á meðal beinum tillögur um bæði fjármögnun einstakra framkvæmda og verkefna ásamt verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.
Sérfræðingahópinn skipa Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Sigrún Ólafsdóttir, sérfræðingur í forsætisráðuneytinu, Sigurður Helgason, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Birgir Björn Sigurjónsson tilnefndur af SSH, Guðrún Edda Finnbogadóttir tilnefnd af SSH og Páll Björgvin Guðmundsson tilnefnd af SSH.