Flugfélagið WOW air skuldaði Isavia rúman milljarð króna í lok júlí á síðasta ári og hafði skuldin þá tvöfaldast á einum mánuði. Í fundargerðum stjórnar Isavia kemur fram að WOW fékk að safna upp skuldum vegna vissu Isavia um að félagið hefði öruggan haldsrétt í einhverri af þeim vélum sem WOW hafði á leigu. Frá þessu er greint í Viðskiptablaðinu í dag.
Skuld WOW tvöfaldaðist á einum mánuði
Í fundargerðum stjórnar Isavia, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndunum, má finna greiðsluáætlun vegna vanskila WOW sem lá fyrir í lok september á síðasta ári. Í áætluninni kemur fram að skuldir flugfélagsins námu 509 milljónum króna í júní árið 2018 og höfðu tvöfaldast mánuði síðar „Af því má ráð að staða WOW hafi verið orðin nokkuð þung áður en skuldabréfaútboð félagsins hófst,“ segir í umfjöllun Viðskiptablaðsins. Skuldabréfaútboði WOW air lauk þann 18. september á síðasta ári og safnaði flugfélagið 60 milljónum evra í útboðinu.
Í fundargerðum stjórnar Isavia kemur jafnframt fram að mánuði áður en greint er frá skuldabréfaútboði WOW air var tveggja milljarða króna heimild fyrir „rekstarlánalína og/ eða yfirdráttarlán“ samþykkt á stjórnarfundi Isavia. Ekki er tilgreint um tilefni lánalínunnar.
Töldu ákvæði loftferðalaga tryggja skuld WOW
Greiðsluáætlunin kvað á um að fyrsta greiðslan yrði framkvæmd þann 1. nóvember 2018 og sú síðasta ári síðar. Fyrstu sjö mánuðina skyldi WOW greiða 30 milljónir mánaðarlega, auk vaxta, en frá og með júní 2019 myndi mánaðargreiðslan nema 145 milljónum. Ársvextir félagsins voru 9 prósent. Jafnframt er kveðið á um í áætluninni að ávallt sé hið minnsta ein flugvél Wow air staðsett á Keflavíkurflugvelli eða á leið til vallarins og komin með staðfestan komutíma.
Í fundargerðunum kemur jafnframt fram að stjórn Isavia hafi talið að ákvæði loftferðalaga tryggja skuld Wow við félagið meðal annars á grundvelli héraðsdóms frá 2014. „Ljóst er að Isavia hefur ríka heimild til að stöðva loftfar og með því tryggja greiðslu gjalda sem fallið hafa til hjá flugrekandanum. Þá getur félagið bundið frestun ýmsum frekari skilyrðum sem auðveldar félaginu beitingu slíkra stöðvunarheimilda,“ segir í fundargerðinni sem Viðskiptablaðið hefur undir höndunum.
Telur mögulegt að heimfæra fyrirgreiðslu stjórnenda Isavia til WOW undir umboðssvik
Air Lease Corporation hefur lagt fram aðfararbeiðni gegn Isavia og krefst þess að flugvél í eigu ALC sem WOW hafði á leigu verði afhent tafarlaust. Málið verður flutt munnlega fyrir Héraðsdómi Reykjaness í dag og mun úrskurður dómstólsins væntanlega liggja fyrir síðdegis.
Í umfjöllun Viðskiptablaðsins er haft eftir Oddi Ástráðssyni, lögmanni leigusala WOW, að hann telji mögulegt að heimfæra fyrirgreiðslu stjórnenda Isavia til WOW undir umboðssvik. Isavia hafi farið langt út fyrir umboð sitt með endurgreiðslusamkomulagi sínu við WOW.