Styttri vinnuvika dregur úr upplifun af kulnun sem og andlegum og líkamlegum streitueinkennum. Jafnframt hefur stytting vinnuvikunnar ekki neikvæð áhrif á skilvirkni og árangur á vinnustöðum og starfsandi mælist betri. Þetta kemur fram í niðurstöðum tilraunaverkefnis ríkisins og BSRB um styttingu vinnuvikunnar sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi fyrir skömmu.
Jákvæð áhrif á vinnu og daglegt líf
Tilraunaverkefni ríkisins og BSRB um styttingu vinnuvikunnar var sett af stað vorið 2017. Markmið verkefnisins var að kanna hvort stytting vinnuviku úr 40 stundum í 36 stundir á vinnustöðum hjá ríkinu leiddi til gagnkvæms ávinnings starfsmanna og þeirra vinnustaða sem urðu fyrir valinu til að taka þátt í verkefninu. Þrjár rafrænar kannanir voru lagðar fyrir starfsmenn þeirra vinnustaða sem tóku þátt, en þeir eru Lögreglan á Vestfjörðum, Embætti ríkisskattstjóra, Útlendingastofnun og Þjóðskrá Íslands. Þær voru einnig lagðar fyrir starfsmenn fjögurra annarra vinnustaða með lík einkenni til viðmiðunar.
Í könnununum þremur voru metin viðhorf til ýmissa þátta sem tengjast upplifun og líðan í starfi. Kannað var hvernig þátttakendum gekk að samræma vinnu og einkalíf og spurt um væntingar og reynslu af styttingu vinnuvikunnar. Niðurstöður könnunarinnar sýna jákvæða upplifun af styttingu vinnuvikunnar og jákvæð áhrif á líðan í vinnu og daglegu lífi.
Mest dró úr upplifun af kulnun hjá aldurshópnum 41 til 60 árs
Enn fremur kemur fram í skýrslunni að kannanirnar sýndu marktækt meiri mun á viðhorfum kvenna en karla á tilraunavinnustöðunum eftir tólf mánuði af styttingu vinnutíma. Konur upplifðu marktækt meira jafnvægi milli vinnu og einkalífs sem og meiri stuðning vinnufélaga meðan niðurstöður karla stóðu í stað. Niðurstöður sýndu enn fremur að konur upplifðu marktækt minni hlutverkarugling og meiri starfsánægju þegar ár var liðið af styttingu vinnutíma í samanburði við karlana. Hjá báðum kynjum dró hins vegar marktækt úr upplifun af álagi í starfi.
Þá voru jákvæðar væntingar og upplifun af styttingu vinnutíma hjá báðum kynjum og öllum aldurs- og menntunarhópum milli kannana. Enn fremur dró marktækt úr upplifun kulnunar hjá báðum kynjum og öllum nema elsta aldurshópnum en mest dró úr upplifun af kulnun í aldurshópnum 41 til 60 ára.
Hefur ekki neikvæð áhrif á skilvirkni
Í verkefninu voru einnig gerðar hagrænar mælingar þar sem horft er til veikindafjarvista, yfirvinnustundir, skilvirkni og árangur. Samkvæmt skýrslunni er erfiðara að fullyrða um niðurstöður hagrænna mælinga að tólf mánuðum liðnum en út frá þeim mælingum sem stuðst er við hefur stytting vinnuvikunnar ekki neikvæð áhrif á árangur og skilvirkni.
Ásmundur Einar kynnti skýrsluna á ríkisstjórnarfundi fyrir skömmu og haft er eftir honum í tilkynningu frá ráðuneytinu að þetta sé áhugaverð tilraun sem bendir til jákvæðrar útkomu. „Stytting vinnuvikunnar er víða til umræðu og á ég von á því að niðurstöðurnar gagnist við frekari skoðun,“ segir Ásmundur Einar.