Samtök iðnaðarins (SI) og Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK) saka Ríkisútvarpið um að blása út eignarhlut sinn í aðkeyptu dagskrárefni. Það sé gert með því að reikna framleiðslukostnað út frá heildarkostnaði að frádreginni endurgreiðslu. Samtökin segja skilmálabreytingar á samningum við sjálfstæða framleiðendur hafa verið gerðar án aðkomu þeirra.
Breytingarnar felast fyrst og fremst í því að í stað þess að RÚV greiði eingöngu fyrir sýningarrétt greiðir fyrirtækið nú annars vegar fyrir sýningarrétt og hinsvegar fyrir eignarhlut í dagskrárefninu.
Með því að eignast eignarhlut í verkefnunum fær RÚV jafnframt hlutdeild í mögulegum hagnaði sem verður af verkefnunum. Þann hagnað hyggst fyrirtækið svo nota til að fjármagna innlenda dagskrárgerð.
Vilji meira fyrir minna
Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, hefur haldið utan um málið fyrir hönd samtakanna. Hún segir að mikilvægt sé að komist verði að sátt um það hvernig aðkomu RÚV að framleiðslu dagskrárefnis sé háttað og að ef fyrirtækið eigi að eignast hlutdeild í þeim verkefnum sem þeir kaupi sýningarréttinn að þurfi allir aðilar að komast að samkomulagi um hvernig eignarhluturinn skuli reiknaður.
Birgir neitar því í samtali við Kjarnann að RÚV hafi nokkurn tímann leitast eftir hlutdeild í endurgreiðslunum. Hann segir þó að fyrirtækið hafi í einhverjum tilvikum reiknað eignarhlut sinn í aðkeyptu dagskrárefni að teknu tilliti til endurgreiðslunnar, það sé þó ekki algilt verklag.
Aðilar innan kvikmyndaiðnaðarins sem Kjarninn ræddi við segja að RÚV sé ekki einungis teygja sig í opinbert fjármagn sem ætlað sé til að styðja við sjálfstæða kvikmyndagerð, heldur sé fyrirtækið að reyna að fá meira en borga minna. Heimildir Kjarnans herma að í að minnsta kosti einu tilviki hafi RÚV farið fram á að eignast 40 prósenta hlut í einu verkefni þrátt fyrir að greiða eingöngu fimmtán prósent af heildarkostnaði við framleiðslu þess. Slíkur eignarhlutur hleypur á hundruðum milljóna. Birgir neitar því alfarið að RÚV hafi nokkurn tímann farið fram á eða eignast svo stóran hlut í verkefnum sem það hefur verið meðframleiðandi að.
Fjármagn ætlað í sýningarrétt
Sú skoðun virðist ríkjandi innan kvikmyndaiðnaðarins að óeðlilegt sé að fyrirtæki í eigu hins opinbera, sem fái fjármagn af fjárlögum hvers árs sé að sækja á þennan hátt í fjármagn sem ætlað sé til að styðja við sjálfstæða framleiðendur. Birgir segir að RÚV telji sig alls ekki vera á gráu svæði og að fyrirtækið fylgi lögum og reglum að öllu leyti. Lokatakmarkið sé ávallt að styðja við sjálfstæða, innlenda kvikmyndagerð.
Þeir sem Kjarninn ræddi við innan kvikmyndaiðnaðarins segja að fjármagnið sem RÚV fái á fjárlögum hvers árs sé ætlað til kaupa á sýningarrétti en ekki til fjárfestingar í kvikmyndagerð. Árið 2018 fékk RÚV rúma fjóra milljarða af fjárlögum auk þess að sækja sér yfir tvo milljarða af auglýsingafé. Þetta mikla fjármagn, auk þess að RÚV hefur skyldu samkvæmt lögum til að kaupa innlent dagskrárefni, gerir það að verkum að fyrirtækið er langstærsti kaupandinn að innlendu efni.
Sigríður vill ekki taka svo djúpt í árinni en segir að erfitt sé fyrir framleiðendur að standa á móti jafn stórum aðila á markaðinum og RÚV er. Það eigi sérstaklega við um minni framleiðendur.
Það kemur Birgi á óvart að þetta sé upplifun einhverra innan kvikmyndaiðnaðarins og segir hann að RÚV eigi í miklu og góðu samstarfi við alla framleiðendur. Hann segir einnig að Sjónvarp Símans sé orðinn stór aðili í kaupum á innlendu efni og því sé stærðarmunurinn ekki jafn mikill og áður.
Aðilar verði að vera sammála
Birgir segir að ástæða þess að RÚV fari fram á eignarhlut í verkefnunum sé að þannig geti fyrirtækið betur stutt við innlendan kvikmyndaiðnað. Það sé ávallt endatakmarkið með því að fjárfesta í dagskrárgerð í stað þess að kaupa eingöngu sýningarrétt og að þessi háttur feli í sér betri meðferð á opinberu fé.
Hann segir að fyrirtækið hafi skuldbundið sig til að nýta þann hagnað sem mögulega geti skapast til þess að fjárfesta enn frekar í innlendri dagskrárgerð. Til þess hafi þó ekki enn komið þar sem um hafi verið að ræða verkefni sem ekki hafi verið arðbær.
Sigríður segir að þó að þessi verk hafi ekki skilað hagnaði enn sem komið er sé verið að hugsa til framtíðar. Eftir því sem íslenskur kvikmyndaiðnaður verður virtari séu meiri líkur á að þau skili hagnaði og að þeir aðilar sem eigi hlut að máli verði að vera sammála um hvernig þeim hagnaði sé ráðstafað.
Hún segir að SI og SÍK hafi fengið þær upplýsingar á fundum með RÚV að nota eigi þann hagnað sem fyrirtækið hafi af verkunum til að efla sjónvarpssjóð sem eigi að nota til fjármagna innlenda dagskrárgerð í framtíðinni.
Gæti talist ríkisstyrkur
Í lögfræðiáliti sem SI og SÍK lét gera fyrir sig kemur fram margvísleg gagnrýni á þetta fyrirkomulag RÚV. Meðal annars geti það talist til ríkisstyrkja að RÚV eignist hlutdeild í verkunum, þar sem fyrirtækið komi ekki að öðru leyti að skipulagningu eða framleiðslu en því að leggja til fjármagn og taki ekki það sem kallað er „veruleg fjárhagsleg áhætta“.
Teljist framlag RÚV vera ríkisstyrkur geti það skapað framleiðendum margvísleg vandræði þegar kemur að fjármögnun þeirra þátta og kvikmynda sem verið er að framleiða. Í fyrsta lagi verði það til þess að lækka þann stofn sem endurgreiðslan úr ríkissjóði reiknast af. Í öðru lagi geti það orðið til þess að ekki fáist fjármögnun úr Creative Media Europe, evrópskum sjóði sem íslenskir framleiðendur geta sótt um styrki úr, þar sem reglur sjóðsins banni að verk sem fengið hafi fjármagn frá ríki fái styrki úr sjóðum þess. Í versta falli geti þetta orðið til þess að framleiðendur verði að endurgreiða þá styrki sem þeir hafa fengið.
Í samtali við Kjarnann segir Sigríður að teljist fjárfesting RÚV vera ríkisstyrkur sé þetta tifandi tímasprengja. Um sé að ræða umtalsverðar upphæðir sem gæti reynst erfitt fyrir fyrirtæki að greiða til baka og koma verði í veg fyrir að slíkar aðstæður skapist.