Bandaríska flugvélaleigufyrirtækið ALC hefur greitt 87 milljón króna skuld við Isavia vegna kyrrsettrar vélar sem WOW air hafði á leigu og krefst þess að fá hana afhenta fyrir klukkan 14. Þetta kemur fram í frétt RÚV í dag.
Samkvæmt RÚV er þessi upphæð í samræmi við útreikninga lögfræðinga ALC varðandi þessa tilteknu skuld. Héraðsdómur Reykjaness komst að þeirri niðurstöðu fimmtudaginn síðastliðinn að heimilt væri að aftra för flugvélarinnar vegna gjalda sem tengjast vélinni sjálfri. Isavia hafði kyrrset vélina vegna tveggja milljarða skuldar hins fallna flugfélags við fyrirtækið.
Isavia ákvað fyrir helgi að kæra úrskurð Héraðsdóms Reykjaness í málinu en úrskurðurinn gerði ráð fyrir að kyrrsetningin á vélinni væri lögleg, en á grundvelli 87 milljóna króna skuldar en ekki tveggja milljarða, eins og lendingagjaldaskuld WOW air var.
Í samtali við fréttastofu RÚV sagði Oddur Ástráðsson lögmaður ALC að búið væri að greiða gjöld sem tengdust vélinni sem er í eigu flugvélaleigunnar. Um er að ræða tvær skuldir, upp á rúmar 55 milljónir og aðra upp á rúmar 31 milljón króna. Upphæðin var lögð inn á reikning Isavia.
„Þeir eiga næsta leik. Við teljum að kæra þeirra á fyrri úrskurði hafi ekkert gildi í málinu,“ sagði Oddur.
Uppfært: Í samtali við fréttastofu RÚV sagði Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia að greiðsla ALC væri hvorki „hvorki fullnaðargreiðsla vegna skulda wow né fullnægjandi trygging.“ Vélin verði áfram kyrrsett vegna skuldar WOW air sem nemur rúmum tveimur milljörðum króna. ALC hefur veitt Isavia frest til klukkan tvö að láta vélina af hendi.
„Eins og áður hefur komið fram voru misvísandi forsendur í úrskurði dómara við Héraðsdóm Reykjaness,“ sagði Guðjón enn fremur. „Því kærðum við úrskurðinn til Landsréttar því við teljum mikilvægt að fá niðurstöðu í málinu á æðra dómstigi. Landsréttur hefur fengið kæruna í sínar hendur.“