Blaðamannafélagið og fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar sem er hluti af Sýn hf., gera alvarlegar athugasemdir við tillögur dómsmálaráðherra á lögum um einkamál. Samkvæmt frumvarpinu yrði samtímaendursögn af dómsmálum óheimil og einungis dómstólum yrði heimilt að taka upp hljóð- eða myndefni af þinghaldi. Telja fréttastofan og Blaðamannafélagið tillögurnar ganga gegn lýðræðislegum starfsháttum dómstóla og reglunni um opin réttarhöld. Þórir Guðmundsson, ritstjóri fréttastofunnar, segir í umsögninni að frumvarpið hamli upplýsingagjöf til almennings og muni rýra traust almennings á dómstóla.
Opin réttarhöld meginregla réttarfars
Í umsögn fréttastofu Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar segir að reglan um opin réttarhöld sé ein af meginreglum réttarfars í lýðræðisríkjum. Þar kemur fram að eftir athugasemd Lögmannafélags Íslands við fyrri útgáfu frumvarpsins, um að það gengi gegn þeirri meginreglu að réttarhöld skuli vera opin hafi bannið verið takmarkað við skýrslutökur. Fréttastofan telur það að takmarka bann við samtímaendursögn við skýrslutökur gangi enn gegn þeirri meginreglu að réttarhöld skulu opin. Í umsögninni kemur fram að nærtækara væri að opna dómstóla frekar fyrir almenningi og varað er við þeirri viðleitni að loka aðgengi að þeim.
Blaðamannafélag Íslands segir í athugasemdum sínum að þægindarammi lögmanna, dómara og sakborninga eigi ekki að ráða för við breytingar á við þær sem boðaðar eru í frumvarpinu. Þá telur félagið að nauðsyn fyrir breytingunum hafi ekki verið rökstudd með nægjanlegum hætti. Íslenskt samfélag þurfi að styrkja fjölmiðla við að opna umræðu um mikilvæg mál og dómsmál megi ekki vera þar undanskilin og frumvarpið komi til með að takmarka upplýsingagjöf til almennings. Dómari hafi fullt forræði í dómsal og geti lokað réttarhöldum telji hann hættu vera á því að réttarspjöll geti orðið.
Upptökur hafi áhrif á starfsfólk
Í gildandi lögum kemur fram að vitni skuli yfirheyrt án þess að önnur vitni séu viðstödd og er ástæða fyrir banni af samtímaendursögn sögð vera til að koma í veg fyrir að vitni geti haft áhrif á vitnisburð annarra. Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu eru engar breytingar lagðar til á heimildum um birtingu endurrita eða dómskjala sem hafa að geyma sömu upplýsingar og eru í vitnisburðum.
Í greinargerðinni kemur jafnframt fram að samkvæmt gildandi lögum geti vitni verið í sjálfsvald sett hvort það birti hljóð- eða myndupptöku af vitnisburði sem það hefur veitt fyrir dómi. Bent er á að vitnisburður sé sjaldnast einkamál þess sem gefur skýrslu og því sé nauðsynlegt að koma í veg fyrir að vitni geti birt upptökur af vitnisburði sínum.
Þá geti slíkar upptökur einnig haft þau áhrif að starfsfólk hagi störfum sínum með öðrum hætti en það myndi annars gera, ef það teldi sig eiga á hættu að myndband af því gæti birst á netinu. Því sé nauðsynlegt að banna öðrum en dómstólum að taka upp efni við þinghald. Í greinargerðinni er einnig sagt að nauðsynlegt sé að víkka bannið vegna tilkomu nýrrar fjarskiptatækni sem geri það kleyft að miðla bæði hljóð- og myndefni til stærri eða smærri hópa.