Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir eftirlitið fylgjast vel með því hverjir eiga fjármálafyrirtæki og nýtir þær heimildir sem það hefur til þess til hins ítrasta.
„Við höfum mjög víðtækar heimildir varðandi virka eigendur, þá sem eiga yfir tíu prósent, við metum hæfi þeirra.“ Það sé rannsakað nægilega djúpt til að eftirlitið fái vitneskju um hverjir séu eigendur í erlendum sjóðum sem eiga stóra hluti í íslenskum bönkum. Slíkir sjóðir eru til að mynda á meðal stærstu eigenda Arion banka.
Þetta er meðal þess sem kom fram í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við Unni í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni.
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan:
Grein sem Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, skrifaði í Vísbendingu nýverið vakti mikla athygli, en þar sagði hann meðal annars: „„Um þessar mundir eru ýmsir af þeim einstaklingum sem tóku virkan þátt í fjármálaævintýrinu 2003-2008 að snúa aftur til landsins. Peningum var í mörgum tilvikum komið undan árin 2007-2008 og eru þetta fjármagn nú að skila sér til baka, einmitt þegar búið er að gera upp þrotabú hinna föllnu banka upp. Líklegt er að a.m.k. einn öflugur banki verði í eigu þessara aðila innan ekki langs tíma ef það hefur ekki gerst nú þegar. Vandinn er sá að rekstur bankanna fyrir 2008 var ámælisverður eins og margir refsidómar bera vitni um. Ekki eru öll kurl komin til grafar um þann rekstur. Endurskoðendur gegndu lykilhlutverki í því að láta bókfært eigið fé margfaldast á fáum árum en hafa ekki sýnt neina iðrun í þeim efnum.“
Unnur staðfesti þó í þættinum að Fjármálaeftirlitið geti séð hvort að þeir sem áttu eða stýrðu bönkum á Íslandi fyrir hrun séu á bakvið þá sjóði sem fara með virkan eignarhlut í skráðum íslenskum banka. „Við förum ekki offari í því að dæma menn fyrirfram úr leik. Það þarf að fara yfir hvert og eitt mál.“
Hún segir að Fjármálaeftirlitið geti ekki fylgst með því beint hvort að peningum sem komið hafi verið með einhverjum hætti undan séu nú að notast til að kaupa upp hluti í bönkum en bendir á að verið sé að bregðast mjög hart við ábendingum um veikleika sem tengjast vörnum Íslands gegn peningaþvætti um þessar mundir. „Það er verið að styrkja allt kerfið varðandi aðgerðir gegn peningaþvætti. Áður var kannski fókusinn fyrst og síðast á fjármálaþjónustu en nú er búið að stækka flóruna. Þannig að það á að vera erfiðara að nota listaverkasala, fasteignasala og allt svoleiðis til að þvætti peninga.“
Þar er Unnur að vísa í það að í apríl 2018 skiluðu alþjóðlegu samtökin Financial Action Task Force (FATF) úttekt á Íslandi þar sem niðurstaðan var sú að varnir landsins gegn peningaþvætti fengu falleinkunn. Sérstaklega var þar fjallað um fjármagnshöftin sem voru við lýði á Íslandi frá nóvember 2008 og fram í mars 2017. Í skýrslu FATF sagði: „Þessum höftum var lyft í mars 2017 og yfirvöld hafa ekki tekið tillit til þeirra áhrifa sem það geti haft á áhættu vegna peningaþvættis/fjármögnun hryðjuverkasamtaka í landinu.“
Íslandi var gefið fram á mitt ár 2019 til að bregðast við. Ef úrbætur yrðu ekki nægjanlegar, og Ísland færi á lista FATF yfir ósamvinnuþýð ríki myndi það, að mati innlendra hagsmunaaðila, leiða til þess að orðstír og trúverðugleiki Íslands á alþjóðavettvangi biði verulegan hnekki.
Ef Ísland yrði sett á slíkan lista myndi það einnig leiða til þess að gerðar yrðu strangari kröfur til landsins og aðila sem þar búa um hvers konar fjármálastarfsemi, stofnun útibúa, dótturfélaga og umboðsskrifstofa og jafnvel útgáfu aðvarana um að viðskipti við íslenska aðila sem gætu falið í sér hættu á peningaþvætti.
Skýrsla FATF ýtti verulega við málum hérlendis. Nánar er hægt að lesa um það hér til hliðar.