Jukka Heinonen, prófessor við umhverfis- og byggingarverkfræðideild í Háskóla Íslands, hefur kannað hvernig neysludrifið kolefnisspor Íslendinga dreifist um heimsbyggðina. Í rannsókn Jukka frá árinu 2017 kemur fram að við útreikning á kolefnisspori neyslu íslenskra heimila hafi gögn um útgjöld þeirra meðal annars verið tengd við erlendan gagnabanka um vistspor landa.
Í ljós kom að meðalárskolefnisspor vegna neyslu íslenskra heimila reyndist áþekkt því sem gerist meðal þjóða Evrópusambandsins – þrátt fyrir sérstöðu Íslands í orkumálum. Samgöngur, matur og vörur voru þeir flokkar sem voru ábyrgir fyrir stærstum hluta útblásturs íslenskra heimila.
Rannsóknin sýndi einnig að um 71 prósent útblásturs heimila var vegna innfluttra vara og reynist útblástursbyrðin vegna neyslu íslenskra heimila mest í þróunarríkjum. „Niðurstöðurnar sýna að þörf er á víðtækari nálgun á útreikningi á útblæstri gróðurhúsalofttegunda en áður auk þess sem stefnumótun verður að taka mið af honum, bæði á Íslandi og annars staðar í heiminum. Rannsóknin getur því nýst til framtíðar fyrir velmegandi þjóðir sem vinna að lágmörkun útblásturs,“ sagði Jukka þegar niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar á sínum tíma.
Matvæli stór hluti af losun Íslendinga
Jukka segir í samtali við Kjarnann að rannsóknin eigi enn vel við í dag. „Íslenskt samfélag „útvistar“ meirihluta losunar og býr við ákveðna lág-kolefna tálsýn. Þetta á jafnvel enn betur við í Reykjavík, þar sem lítil framleiðsla á sér stað. Borgin tilkynnir mjög litla losun en áhrif hennar eru mjög mikil í alþjóðlegum samanburði.“
Hann bendir á að matvæli séu stór hluti af losun Íslendinga og eru þau í reynd í öðru sæti á eftir samgöngum. „Þessi losun á sér stað að mestum hluta utan landsteinanna og í flutningi matvælanna til Íslands. Á Íslandi fer fram kjötframleiðsla, sem losar mikið sama hvar. Það er algengur misskilningur að til dæmis íslenska lambið sé á einhvern hátt framleitt sjálfbært þar sem raunin er sú að loftslagsáhrifin eru ótengd staðbundnum aðstæðum á Íslandi.“
Hann telur að kolefnisspor vegna matvæla myndi minnka til muna með grænmetismiðuðu mataræði og sérstaklega með staðbundinni grænmetisframleiðslu sem kæmi í staðinn fyrir kjötframleiðslu.
Losun gróðurhúsalofttegunda jókst milli áranna 2016 og 2017
Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun jókst losun gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda um 2,2 prósent milli áranna 2016 og 2017. Upplýsingar um losun Íslands má finna í skýrslu stofnunarinnar (National Inventory Report – NIR) um losun gróðurhúsalofttegunda til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) sem birt var þann 15. apríl síðastliðinn.
Í skýrslunni er að finna ítarlegar upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, þróun frá 1990 til 2017, ásamt lýsingu á aðferðafræðinni sem notuð er til að meta losunina.
Aukning ferðamanna og almenn neysla hefur áhrif
Samdráttur í losun var 5,4 prósent yfir tímabilið 2005 til 2017. Losun gróðurhúsalofttegunda hefur hins vegar verið nokkuð stöðug síðan 2012, þrátt fyrir aðgerðir til að stemma stigu við losun. Samkvæmt Umhverfisstofnun má meðal annars reka það til aukningar ferðamanna á Íslandi og hins vegar aukningu almennrar neyslu.
Helstu uppsprettur sem falla undir beina ábyrgð íslenskra stjórnvalda eru vegasamgöngur, olíunotkun á fiskiskipum, iðragerjun, losun frá kælimiðlum og losun frá urðunarstöðum.
Fyrir utan fyrrnefnda losun á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda tekur skýrslan einnig á losun frá stóriðju undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS). Árið 2017 féllu 39 prósent af heildarlosun Íslands undir ETS og var þar 2,8 prósent aukning í losun innan kerfisins milli 2016 og 2017, samkvæmt frétt Umhverfisstofnunar um málið.
Aukin losun frá fólksbílum, málmframleiðslu, kælimiðlum og nytjajarðvegi
Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi, það er losun á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda og ETS samtals, jókst þar af leiðandi um 2,5 prósent milli 2016 og 2017. Þessar tölur innihalda ekki losun frá landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt (LULUCF). Losun frá LULUCF telur ekki til skuldbindinga, þó hún sé metin og gert grein fyrir henni í skýrslunni, og er hún þess vegna ekki innifalin í umfjöllun um heildarlosun Íslands. Hins vegar má Ísland telja hluta af kolefnisbindingu á móti losuninni. Flug (alþjóða- og innanlands) og alþjóðasiglingar telja ekki heldur til skuldbindinga.
Meginástæður fyrir aukningu í losun milli 2016 og 2017, án landnotkunar, er aukin losun frá fólksbílum, málmframleiðslu, kælimiðlum og frá nytjajarðvegi. Þrátt fyrir að heildarlosunin hafi aukist milli ára, hefur losun dregist saman frá ákveðnum uppsprettum, segir í frétt Umhverfisstofnunar. Þar megi nefna sem dæmi losun frá framleiðsluiðnaði, meðal annars frá fiskimjölsverksmiðjum, sem hafi dregist saman um 9 prósent og losun frá urðunarstöðum sem hafi dregist saman um 3 prósent.