Ávinningur af starfsemi starfsendurhæfingarsjóðsins VIRK var 17,2 milljarðar króna árið 2018 en rekstrarkostnaður sjóðsins nam 3,1 milljörðum það ár. Þetta kemur fram í skýrslu sem Vigfús Ásgeirsson, tryggingastærðfræðingur hjá Talnakönnun hf., vann fyrir VIRK. Þá var einnig reiknaður meðalsparnaður á hvern útskrifaðan einstakling frá VIRK en hann nam 12,7 milljónum króna í fyrra.
15.000 manns leitað til VIRK frá upphafi
VIRK hefur það hlutverk að efla starfsgetu einstaklinga í kjölfar veikinda eða slysa og hjálpa einstaklingum að fóta sig á vinnumarkaði. Starfsendurhæfingarsjóðurinn starfar eftir lögum um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða frá 2012, en var stofnaður árið 2008 sem sjálfseignarstofnun af samtökum stéttarfélaga og atvinnurekenda. Lífeyrissjóðir bættust svo í hópinn árið 2012 og ríkisvaldið hefur haft aðkomu að sjóðnum síðan 2015.
VIRK hefur fengið Talnakönnun til að greina árangur og ávinning af starfsemi sinni síðustu sex ár en matið er byggt á ópersónugreinanlegum gögnum úr upplýsingakerfi VIRK ásamt öðrum upplýsingum og er miðað við tilteknar forsendur um afdrif einstaklinga án þjónustu VIRK. Samkvæmt skýrslunni er ávinningur af starfi VIRK metinn á 17,2 milljarða króna í fyrra en árið 2017 var ávinningurinn metinn á 14,1 milljarð króna.
74 prósent einstaklinga í vinnu, atvinnuleit, eða námi
Frá árinu 2008 og til loka ársins 2018 höfðu tæplega 15.000 manns leitað til VIRK. Samkvæmt heimasíðu sjóðsins eru aðstæður einstaklinganna sem leita til VIRK misjafnar en yfir 70 prósent þeirra sem leita til VIRK hafa ekki starfsgetu vegna andlegra sjúkdóma eða stoðkerfisvandamál.
Af þeim einstaklingum sem luku þjónustu hjá VIRK í fyrra eru 74 prósent annað hvort að öllu eða einhverju leyti virkir í vinnu, atvinnuleit eða námi. Þá eru um 70 prósent þeirra sem útskrifast hafa frá VIRK nú á vinnumarkaði.
Þá er öllum einstaklingum sem útskrifast frá VIRK boðið að taka þátt í þjónustukönnun en samkvæmt henni hefur þjónusta VIRK haft töluverð áhrif á sjálfsmynd, starfsgetu og líkamlega og andlega heilsu svarenda.