Heimagistingarvaktinni hefur borist yfir 3000 ábendingar um óleyfilega heimagistingu síðan í sumar en vaktin var efld með sérstakri fjárveitingu ferðamálaráðherra í júní í fyrra. Þá hafa 59 mál verið send lögreglu til rannsóknar og 61 máli verið lokið með stjórnvaldssektum en fyrirhugaðar og álagðar stjórnvaldssektir nema tæplega 100 milljónum króna. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Fjárveiting upp á rúmar 60 milljónir
Í júní í fyrra undirrituðu Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttur ráðherra ferðamála og Þórólfur Halldórsson sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu samkomulag þess efnis að eftirlit með heimagistingu yrði virkara og sýnilegra með styrkingu á heimagistingarvakt Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Lagt var upp með að átaksverkefnið yrði til eins árs en markmiðið er að hafa hvetjandi áhrif á einstaklinga til að skrá skammtímaútleigu sína.
Samningurinn kvað á um 64 milljóna króna fjárveitingu til embættisins en það fer með eftirlit með heimagistingu á öllu landinu. Gert var ráð fyrir að bætt skattskil og sektargreiðslur mundi vega þann kostnað upp en samkvæmt umfjöllun Fréttablaðsins nemur upphæð fyrirhugaðra og álagðra stjórnvaldssekta nú tæplega 100 milljónum króna.
Um 400 prósent aukning milli ára
Á árinu 2017 var áætlað að 80 prósent íbúða í skammtímaleigu væru starfræktar án tilskilinna leyfa eða skráningar. Í samtali við Fréttablaðið segir Sýslumaður að hann áætli að óskráðum og leyfislausum gististöðum hafi fækkað um meira en 30 prósent frá því að átakið hófst síðasta sumar.
Þá hafði í janúar síðastliðnum tíðni skráninga heimagistinga aukist um 400 prósent milli ára. „Það er ánægjulegt að átakið um aukna heimagistingarvakt hafi skilað þetta miklum árangri,“ sagði Þórdís Kolbrún í samtali við Fréttablaðið
Sýslumaður áætlar þó að um helmingur allrar skammtímaleigu fari enn fram hér á landi án tilskilinna leyfa eða skráningar.
80 prósent eigna hjá Airbnb í Reykjavík
Í niðurstöðum rannsóknar á áhrifum Airbnb á húsnæðismarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu, sem birtar voru í byrjun maí, kemur fram að í apríl 2019 voru 2.567 eignir í Reykjavík skráðar á Airbnb og þar af voru 58 prósent starfræktar án lögbundins leyfis.
Enn fremur kemur fram í niðurstöðunum að áttatíu prósent skráðra eigna hjá Airbnb á höfuðborgarsvæðinu séu staðsettar í Reykjavík og 37 prósent í 101 Reykjavík. Sautján prósent eru í 105 Reykjavík og sjö prósent í 107 Reykjavík. Þær götur sem hafa flestar Airbnb eignir á skrá eru Laugavegur, Hverfisgata, Grettisgata, Bergþórugata, Óðinsgata og Bjarnarstígur en allt að 70 prósent eigna í þessum götum eru skráðar hjá Airbnb.
Í niðurstöðunum kemur jafnframt fram að fjöldi skráðra eigna hjá Airbnb hafi margfaldast á höfuðborgarsvæðinu á síðastliðnum árum, til að mynda var tvöföldun á tímabilinu janúar 2016 til janúar 2018 þegar skráðum eignum fjölgaði úr 2032 í 4154.