Fyrsta frumvarp ríkisstjórnarinnar í tengslum við lífskjarasamningana hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Frumvarpið leggur til breytingar á lögum um almennar íbúðir en í tilkynningu frá Félagsmálaráðuneytinu segir að breytingarnar séu lagðar fram til að bæta húsnæðisöryggi og lækka húsnæðiskostnað tekju- og eignalágra leigjenda.
Koma tillögum átakshópsins til framkvæmda
Ríkisstjórnin lagði fram aðgerðir að umfangi 80 milljarða til að liðka fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í apríl síðastliðnum. Aðgerðirnar eru í 38 liðum, þar af snúa 13 liðir að húsnæðismálum. Einn þessara liða snýr að innleiðingu tillagna átakshóps um húsnæðismál sem lagaðar voru fram í janúar síðastliðnum. Tillaganna var beðið með umtalsverðri eftirvæntingu enda þóttu mögulegar aðgerðir yfirvalda í húsnæðismálum vera lykilbreytan í því að höggva á þann hnút sem til staðar var í kjaraviðræðunum.
Hópurinn vann greiningu á þörf fyrir íbúðum á landsvísu en samkvæmt greiningunni lá fyrir að mikið af þeim íbúðum sem voru í byggingu hentuðu ekki þeim hópum sem eru í mestum vandræðum á húsnæðismarkaði, þ.e. tekju- og eignalágum.
Hópurinn lagði því fram alls 40 tillögur sem miðuðu meðal annars að því að hagkvæmum íbúðum á viðráðanlegu verði fyrir tekjulága yrði fjölgað. Þar á meðal tillögur að áframhaldandi uppbyggingu almenna íbúðakerfisins og uppbyggingu óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga að norrænni fyrirmynd. Auk þess lagði hópurinn áherslu á leiðir til þess að lækka byggingarkostnað og stytta byggingartíma.
Lagt fram til að liðka fyrir fjölgun nýbygginga
Með fyrrgreindu frumvarpi félagsmálaráðherra er markmiðið að koma fjórum tillögum átakshópsins til framkvæmda til samræmis við skuldbindingar ríkisstjórnarinnar vegna lífskjarasamninganna. Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur jafnframt fram að unnið sé að nánari útfærslu annarra tillagna átakshópsins sem snúa að almenna íbúðakerfinu og stefnt sé að því að frumvarp þar að lútandi verði lagt fram á Alþingi haustið 2019.
Frumvarpið sem nú liggur fyrir í samráðsgátt var samið í félagsmálaráðuneytinu og Íbúðalánasjóði. Í frumvarpinu er til ýmsar breytingar á lögum um almennar íbúðir sem tóku gildi 15. júní 2016 með það fyrir augum að liðka fyrir fjölgun nýbygginga í almenna íbúðakerfinu. Þá er meðal annars lagt til að sérstakt byggðaframlag, sem standi þá einungis sveitarfélögum, félögum, þar með talið húsnæðissjálfseignarstofnunum, og félagasamtökum sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og hafa það sem langtímamarkmið að eiga og hafa umsjón með rekstri leiguíbúða til boða, verði veitt.
Hægt að sækja um stofnframlög vegna verkefna sem þegar eru hafin
Þá eru lagðar til ýmsar breytingar til að lækka fjármagnskostnað stofnframlagshafa, þar á meðal er lagt til að heimila umsækjendum að sækja um stofnframlög vegna verkefna sem þegar eru í byggingu. Enn fremur er lagt til að sveitarfélögum verði heimilað að leggja fram húsnæði sem breyta á í almennar íbúðir sem stofnframlag.
Í frumvarpinu er einnig lagt til að hækka tekju-og eignarmörk leigjenda almennra íbúða þannig að hærra hlutfall landsmanna eigi kost á almennum íbúðum. Lagt er til grundvallar að í stað þess að mörkin miðist við neðri fjórðungsmörk, 25 prósent, miðist mörkin við tekjur í tveimur lægstu tekjufimmtungum eða 40 prósent.