Í lok árs 2018 voru konur 26,2 prósent stjórnarmanna fyrirtækja sem greiða laun og skráð eru í hlutafélagaskrá. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja var á bilinu 21,3 prósent til 22,3 prósent á árunum 1999 til 2006, hækkaði svo í 25,5 prósent árið 2014, og hefur verið um 26 prósent síðustu fjögur ár. Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar í dag.
Árið 2018 voru konur 33,5 prósent stjórnarmanna í fyrirtækjum með 50 launþega eða fleiri, og er það í fyrsta sinn sem það hlutfall mælist hærra en þriðjungur. Til samanburðar var hlutfall þeirra í stjórnum stórra fyrirtækja 12,7 prósent árið 2007 og 9,5 prósent árið 1999, en náði fyrra hámarki 33,2 prósent árið 2014.
Árið 2010 voru samþykkt lög um að hlutfall hvors kyns skyldi vera yfir 40 prósent í stjórnum fyrirtækja með fleiri en 50 starfsmenn, og tóku þau að fullu gildi í september 2013. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja með færri en 50 launþega stendur nánast í stað milli ára, 25,9 prósent.
Hlutfall kvenna í stöðu framkvæmdastjóra hækkar lítillega milli ára, eða 22,7 prósent, sem fylgir eftir hægfara aukningu allt frá 1999. Hlutfall kvenna í stöðu stjórnarformanna var 24,1 prósent í lok árs 2018.
Vilja jafna hlut kvenna og karla í stjórnum fyrirtækja
Forsætisráðuneytið og Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) gerðu með sér samning um stuðning stjórnvalda við verkefnið Jafnvægisvogina þann 29. mars síðastliðinn.
Markmið verkefnisins er að stuðla að jafnari hlut kvenna og karla í stjórnum og framkvæmdastjórnum fyrirtækja í samræmi við ákvæði laga sem kveða á um 40-60 kynjahlutfall. Samningurinn gildir í eitt ár og greiðir forsætisráðuneytið FKA fimm milljónir króna til að sinna þeim verkþáttum sem samningurinn tekur til. Framkvæmd verkefna samkvæmt samningnum fer fram í nánu samráði við skrifstofu jafnréttismála í forsætisráðuneytinu.
Meginmarkmið samningsins er að gera FKA kleift að vinna áfram að því að safna og samræma tölulegar upplýsingar um hlut kvenna og karla í stjórnum og framkvæmdastjórnum fyrirtækja í eigu einkaaðila og hins opinbera. Þá verður mælaborð Jafnvægisvogarinnar uppfært reglulega, fræðsla veitt um mikilvægi fjölbreytileika í stjórnum og stjórnendateymum og kynningar haldnar á mælaborðinu og markmiðum verkefnisins fyrir fyrirtæki, stjórnvöld og almenning. Einnig verður fyrirtækjum fjölgað til liðs við verkefnið og Jafnvægisvogar-viðurkenningu veitt til þeirra sem náð hafa markmiðum verkefnisins um jafnari hlut kvenna og karla.
Neikvæð þróun hérlendis
Í desember 2018 var greint frá því að Íslandi tróni á toppnum á lista Alþjóðaefnahagsráðsins yfir ríki þar sem kynjajafnfrétti er mest. Næst á eftir Íslandi á listanum eru önnur Norðurlönd: Noregur, Svíþjóð og Finnland, en alls nær úttektin yfir 149 lönd. Hún leggur mat á jafnrétti kynjanna í stjórnmálum, menntun, atvinnu og heilbrigði.
Samkvæmt niðurstöðu úttektarinnar mun það taka heiminn 108 ár að ná fullu jafnrétti karla og kvenna í heiminum. Ísland er, líkt og áður sagði, komið lengst á þeirri vegferð. 85,8 prósent af kynjaójafnréttisbilinu er þegar brúað samkvæmt mælikvörðunum sem miðað er við. Þrátt fyrir forystuhlutverk Íslands þá hefur líka átt sér stað neikvæð þróun hérlendis.
Þannig hafi konum á þingi fækkað í kosningunum 2017. Fjöldi þeirra fór úr mettölunni 30 í 24 og hlutfallið á meðal þingmanna allra úr 47,6 prósent í 38 prósent. Hlutfall kvenna á Alþingi hefur ekki verið lægra eftir hrun. Sigurvegarar þeirra kosninga voru miðaldra karlar, sem juku umfang sitt á meðal þjóðkjörinna fulltrúa umtalsvert.
Þátttaka og tækifæri kvenna í efnahagslífinu dregist saman
Í úttekt Alþjóðaefnahagsráðsins segir enn fremur að konum í æðstu embættismannastöðum hafi einnig fækkað. Þá hafi þátttaka og tækifæri kvenna í efnahagslífinu líka dregist saman.
Kjarninn hefur framkvæmt úttekt á því hvers kyns þeir eru sem stýra fjármagni á Íslandi árlega frá 2014. Úttektin nú er því sú sjötta sem framkvæmd hefur verið.
Í ár náði hún, líkt og í fyrra, til 90 æðstu stjórnenda viðskiptabanka, sparisjóða, lífeyrissjóða, skráðra félaga, óskráðra tryggingafélaga, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og -miðlana, framtakssjóða, orkufyrirtækja, greiðslustofnana, Kauphallar og lánasjóða. Niðurstaðan nú er sú að 80 þeirra eru karlar en tíu eru konur. Konum fjölgar um eina á milli ára en hlutfall þeirra á meðal helstu stjórnenda fjármagns á Íslandi fer með því úr tíu prósentum í 11,1 prósent milli áranna 2018 og 2019.
Þessi hópur sem fellur undir úttektarskilyrðin stýrir þúsundum milljarða króna og velur í hvaða fjárfestingar þeir peningar rata hverju sinni.
Þegar úttekt Kjarnans var framkvæmd fyrst, í febrúar 2014, voru störfin sem hún náði yfir 88 talsins. Þá sátu 82 karlar í þeim störfum en sex konur. Árið 2015 voru störfin 87, karlarnir 80 og konurnar sjö. 2016 voru störfin 92, karlarnir 85 og konurnar sjö. Árið 2017 var niðurstaðan 80 karlar og átta konur. Í fyrra var hún 81 karl og níu konur. Og í ár fjölgaði konunum um eina en körlunum fækkaði um jafnmarga.