„Ég er eiginlega sannfærðari en ég var fyrir rúmlega ári. Fyrst og fremst vegna þess að nú hef ég reynsluna við að sitja við ríkisstjórnarborðið og stýra heilbrigðismálunum.“
Þetta segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra aðspurð um hvort að hún sé enn jafn sannfærð og hún var áður um að það hafi verið rétt ákvörðun hjá Vinstri grænum að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.
Sjálf segist hún hafa náð að stíga ákveðin skref sem hún telji mjög mikilvæg í sínum málaflokki, sem ein og sér réttlæti aðkomu Vinstri grænna að stjórninni. „Bæði með því að auka fjármagn inn í kerfið og líka ákveðnum lagaumbótum sem eru mikilvæg, eins og þessum lögum um þungunarrof.“
Svandís var gestur Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni.
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Svandís segir að ríkisstjórnarsamstarfið, sem teygir sig frá hægri, yfir miðju og til vinstri, sé vissulega óvenjulegt. Við ríkisstjórnarborðið sé hins vegar gríðarlega mikil reynsla. „Mesta reynslan á Alþingi safnast saman í þessum þremur flokkum sem núna mynda ríkisstjórnina. Það gerir það að verkum að það þarf töluvert til að koma þessum hópi úr jafnvægi. Það er kannski það sem er dýrmætast í stjórnmálunum í dag og hefur verið undanfarin ár og misseri, það er það að missa ekki taktinn þó að það blási á móti og stundum þarf maður að hnýta undir kverk og labba áfram út í rokið.“
Það sem skipti gríðarlega miklu máli í ríkisstjórninni sé hins vegar verkstjórn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. „Að forsætisráðherra sé með augun á boltanum og viti nákvæmlega hvar núningsfletirnir liggja í hvaða máli á hverjum tíma. Vinnusamari forsætisráðherra held ég að sé ekki hægt að finna. Hún er fantagóð í að stýra þessum þremur ólíku flokkum saman og er lagin í því bæði pólitískt og mannlegi þátturinn er líka þar mikilvægur.“