„Mér fannst dapurlegt að við skulum vera að upplifa það árið 2019 að það sé talað með þessum hætti. En þetta endurspeglar náttúrulega ákveðna pólitíska sveiflu sem er í löndunum í kringum okkar, sem er ákveðið íhaldssamt öfga-hægri sem stendur að jafnaði líka gegn kvenfrelsi.“
Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, þegar þau ræddu orðræðu ýmissa þingmanna um þungunarrof í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut sem sýndur var í vikunni.
Hægt er að sjá stiklu úr viðtalinu hér að neðan.
Umræðan um þungunarrofsmálið, sem var afgreitt sem lög frá Alþingi á þriðjudag, var oft mjög hörð og þar tókust gjörólík sjónarmið á. Meðal annars skilaði Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, inn minnihlutaáliti í velferðarnefnd þar sem hann sagðist vera þeirrar skoðunar að þegar líf sé myndað af tveimur einstaklingum þá sé „of langt gengið að annar einstaklingurinn hafi einn ákvörðunarvald um það hvort enda skuli meðgönguna. Þannig er mikil ábyrgð lögð á verðandi móður eina.“ Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði í pontu á Alþingi að verið væri að „taka ákvörðun um það að 22 vikna gamalt barn verði drepið í móðurkviði,“ og Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, sagðist í sjónvarpsþætti óttast að fóstrum yrði eytt „vegna kyns“ ef frumvarpið yrði samþykkt.
Aðspurð um hvort að þungunarrofsmálið hafi reynst ríkisstjórninni erfitt, þar sem ekki var einhugur innan stjórnarflokkanna um það, segir hún svo ekki vera. „Ég held að ástæðan hafi verið sú að þegar ég kynnti málið við ríkisstjórnarborðið til að byrja með þá kynnti ég það sem mál sem að ég gerði ekki kröfu til þess að allir stjórnarþingmenn gengu að borðinu eins og gildir að jafnaði um stjórnarfrumvörp, vegna þess að ég áttaði mig á því þá þegar að málið væri mjög gjarnan þvert á flokka og þvert á pólitískar skoðanir.“
Síðan hafi málið þróast þannig þinginu að fimm stjórnmálaflokkar hafi staðið heilir á bakvið málið. „Þar af eru tveir stjórnarflokkar og þrír stjórnarandstöðuflokkar. Ég held að það sé líka svolítið einsdæmi um það hvernig land liggur í lok atkvæðagreiðslu. En ég held að þetta mál sé þeirrar gerðar að það verði aldrei fyrst og fremst stjórnarfrumvarp.“
Svandís segir að hún hafi kynnt málið fyrir þingflokkum hinna tveggja stjórnarflokkanna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, áður en hún mælti fyrir því í þinginu. „Og raunar líka einhverjum stjórnarandstöðuflokkum vegna þess að ég vissi að þetta mál ætti sér breiðari stuðning en sem nemur okkur í ríkisstjórninni sem stöndum að málinu.“