Fylgi Miðflokksins mælist nú 11,8 prósent og hækkar um rúmlega tvö og hálft prósentustig frá síðustu mælingu MMR. Fylgi Pírata minnkar aftur á móti um rúmlega þrjú og hálft prósentustig og mælist fylgi þeirra nú rétt undir 10 prósentum. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR á fylgi stjórnmálaflokka og stuðning við ríkisstjórn. Könnunin var framkvæmd 14. til 16. maí 2019 og var heildarfjöldi svarenda 978 einstaklingar, 18 ára og eldri.
Stuðningur við ríkisstjórnina er nær óbreyttur frá síðustu könnun og mælist nú 40,9 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn mælist sem fyrr með mest fylgi stjórnmálaflokka á Alþingi eða 21,3 prósent en fylgi þeirra hefur aukist um rúmt prósentustig frá byrjun mánaðarins. Fylgi Vinstri grænna mælist 12,2 prósent og fylgi Framsóknarflokksins mælist nú 11,6 prósent.
Fylgi Samfylkingarinnar mælist nær óbreytt frá síðustu könnun og mælist nú 13,9 prósent. Fylgi Viðreisnar mælist 8,4 prósent, fylgi Flokks fólksins mælist 6,4 prósent og fylgi Sósíalistaflokks Íslands mælist 3,2 prósent. Fylgi annarra flokka mælist 1,4 prósent samanlagt.