Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, telur niðurstöðu siðanefndar Alþingis vera aumkunarverða og til marks um siðleysi þeirra sem að henni komast. Frá þessu greinir hún á Facebook-síðu sinni í dag.
Tilefni skrifa formannsins er að siðanefnd Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að ummæli Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingflokksformanns Pírata, sem hún lét falla þann 25. febrúar 2018 um akstursgreiðslur þingsins til Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, hafi ekki verið í samræmi við siðareglur fyrir alþingismenn.
„Þórhildur Sunna segir sannleikann, það sem öll með heila hugsa, bendir rökföst á yfirgengilega spillingu, ekki til að „bæta ímynd“ (að „bæta ímynd“ er verkefni þeirra sem vita að innihaldið er rotið og þessvegna þarf að gæta þess að yfirborðið sé slétt og fellt) eða til að slá sig til riddara heldur vegna þess að hún er með siðferðiskennd og vegna þess að að ef þú sækist eftir áhrifum og ert með siðferðiskennd þá ber þér einfaldlega skylda til að segja sannleikann,“ skrifar Sólveig Anna.
Sólveig Anna segir að fyrir þetta skuli Þórhildi Sunnu nú refsað, fyrir að geta ekki þagað þegar hún verði vitni að skammarlegu og siðlausu framferði. „Refsigleði valdastéttarinnar gagnvart þeim sem dirfast að segja satt er aumkunarverð; þegar ekki er lengur hægt að treysta því að samtryggingin virki, þegar ekki er lengur hægt að treysta því að fégræðgin ráði för hjá fólki þegar kemur að möguleikum á því að komast í peninga er náð í sápuna og óþekka konan látin bíta í hana, henni til refsingar og öðrum til aðvörunnar.“
Þórhildur Sunna segist sjálf ekki ætla að sætta sig við niðurstöðu siðanefndarinnar og telur hún að ef niðurstaðan fái að standa séu skilaboðin til okkar allra þau að það sé verra að benda á vandamálin en að vera sá sem skapar þau. „Ég er algerlega búin að fá nóg af slíkri meðvirkni,“ segir hún.
Þórhildur Sunna segir sannleikann, það sem öll með heila hugsa, bendir rökföst á yfirgengilega spillingu, ekki til að "...
Posted by Sólveig Anna Jónsdóttir on Friday, May 17, 2019