Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing tilkynnti í morgun að uppfærslu á hugbúnaðinum, sem talið er að hafi valdið tveimur flugslysum síðasta vetur, sé nú lokið. Fyrirtækið hefur prófað uppfærði búnaðinn í 207 flugferðum á 737 Max vélunum, en þær hafa verið kyrrsettar um heim allan vegna slysanna. Frá þessu er greint á vef BBC.
Ekki liggur fyrir hvenær kyrrsetningunni verður aflétt
Kyrrsetningin á Max- vélum Boieng kom til eftir flugslys í Eþíópíu, 13. mars síðastliðinn, þegar 157 létust skömmu eftir flugtak Max vélar Ethiopian Airlines. Það var þá annað slysið á skömmum tíma þar sem Max vél hrapaði með þeim afleiðingum að allir um borð létust. Fyrra slysið var 29. október í fyrra, þegar vél Lion Air í Indónesíu hrapaði skömmu eftir flugtak. Þá létust 189, allir um borð. Eftir seinna slysið var notkun á Max-vélunum bönnuð á heimsvísu, og vélarnar kyrrsettar. Sú kyrrsetning hefur haft miklar afleiðingar í ferðaþjónustu í heiminum, þar meðal á Íslandi.
Frumniðurstöður rannsókna á slysunum hafa beint spjótunum að svonefndu MCAS-kerfi í vélunum, sem á að sporna gegn ofrisi. Yfirvöld í Indónesíu hafa kynnt frumniðurstöður rannsóknar sinnar og segja að flugmenn hafi brugðist rétt við aðstæðum, en ekki náð valdi á vélinni vegna þess að hún virtist sífellt togast niður til jarðar. Lokaniðurstöður rannsókna liggja þó ekki fyrir.
Í næstu viku mun Boeing reyna sannfæra flugmálayfirvöld
Á mánudaginn sagði Daniel Elwell, yfirmaður flugmálayfirvalda í Bandaríkjunum, frammi fyrir þingnefnd Bandaríkjaþings, að leiðarvísir fyrir flugmenn Boeing 737 Max véla, hafi ekki verið nægilega góður, þegar kemur að útskýringum á því hvernig ætti að lýsa hinu svonefnda MCAS-kerfi sem á að sporna gegn ofrisi.
Boeing hefur undanfarið unnið að því að uppfæra búnaðinn í vélunum og endurheimta á þeim traust, hjá flugmálayfirvöldum um allan heim. Boeing tilkynnti í morgun að uppfærsla hugbúnaðinum sé nú lokið og að fyrirtækið hafi afhent Bandaríska flugmálaeftirlitinu upplýsingar um hvernig flugmönnum ber að bregðast við ólíkum aðstæðum og að sérstök flughermispróf hafi verið gerð til að þjálfa betur flugmenn.
Þá hafa opinber flugpróf verða ákveðin í samráði við Flugmálaeftirlitið en að því loknu geti Boeing sótt aftur um flugleyfi fyrir Max 737 vélarnar. Eftir það tekur við vinnan við að endurheimta traust á flugvélunum en fundað verður um Max-vélarnar 23. maí næstkomandi og mun Boeing þar reyna að sannfæra fulltrúa flugmálayfirvalda víðs vegar um heiminn, að Max-vélarnar séu traustar.