Bjarnfreður Ólafsson, lögmaður núverandi og fyrrverandi liðsmanna Sigur Rósar og endurskoðanda hljómsveitarinnar, lagði í dag fram frávísunarkröfu, við fyrirtöku máls er varðar meint skattsvik sveitarinnar í Héraðsdómi Reykjavíkur. Frá þessu er greint í frétt mbl.is í dag.
Jón Þór Birgisson, söngvari Sigur Rósar, og endurskoðandi hans, Gunnar Þór Ásgeirsson, hafa verið ákærðir fyrir að hafa komið félagi í eigu Jóns Þórs undan greiðslu tekjuskatts af rúmlega 700 milljónum króna. Ákæran var lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í byrjun apríl síðastliðins þegar Sigur Rósar-málið var þingfest. Jón Þór og endurskoðandi hans neituðu báðir sök.
Málið snýst um samlagsfélagið Frakk sem Jón Þór á. Í ákærunni er Jóni Þór og endurskoðandanum gefið að sök að hafa ekki staðið skil á skattframtölum vegna gjaldáranna 2011 til 2015. Þetta er önnur ákæran á hendur Jóni Þór og endurskoðanda hans en söngvarinn er einnig ákærður fyrir brot sem tengjast félögum í eigu liðsmanna Sigur Rósar. Þar nema brot hans 43 milljónum króna og er söngvarinn því ákærður fyrir 190 milljóna skattalagabrot.
Allir liðsmenn Sigur Rósar nema Kjartan Sveinsson eru ákærðir fyrir meiriháttar skattalagabrot með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattaframtölum gjaldárin 2011 til og með 2014. Kjartan er sagður hafa staðið skil á efnislega röngum skattaframtölum árin 2012 og 2014.
Þremur liðsmönnum sveitarinnar, Georg Holm, Jón Þór og Orri Páll Dýrason, er gefið að sök að hafa komist undan greiðslu tekjuskatts og fjármagnsskatts. Kjartan, sem hætti í Sigur Rós fyrir sex árum, er ákærður fyrir að hafa komist hjá því að greiða tekjuskatt. Saksóknari segir að þeir hafi sleppt því að telja fram rekstrartekjur félagsins á þessum árum sem námu rúmum 700 milljónum og þannig komið félaginu undan greiðslu tekjuskatts upp á 146 milljónir.
Telja þetta brot á reglum um tvöfalda málsmeðferð
„Það er á grundvelli mannréttindasjónarmiða, við segjum að þetta sé brot á reglunum um tvöfalda málsmeðferð,“ sagði Bjarnfreður, lögmaður þeirra, við fjölmiðla eftir fyrirtökuna í dag.
Munnlegur málflutningur um frávísunarkröfuna fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur 12. september næstkomandi.
„Það er búið að úrskurða á þá refsingu, beitingu álags hjá ríkisskattstjóra og þeir eru búnir að standa í þessum málaferlum eða þessu stappi í mörg, mörg ár. Málið hófst fyrst hjá skattrannsóknarstjóra þar sem þeir voru með réttarstöðu sakbornings og síðan var málið flutt aftur til tveggja annarra stofnana, annars vegar til ríkisskattstjóra þar sem að þessi refsing var svo ákveðin. Síðan fór málið í þann farveg að fara til saksóknara líka og allt er þetta sama málið. Það er bara galli, því miður, á þessu réttarfari hér á landi, því miður,“ sagði Bjarnfreður.
Samkvæmt mbl.is sagði hann enn fremur að ef svo færi að íslenskir dómstólar myndu ekki fallast á frávísunarkröfuna yrði málinu „alveg klárlega“ skotið til Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE), sem hefur á undanförnum árum kveðið upp nokkra dóma í sambærilegum málum.