Fréttamiðilinn The Guardian hefur ákveðið að byrja að nota hugtök sem lýsa betur þeim loftslagsbreytingum sem eiga sér stað á jörðinni í umfjöllun sinni. Í stað loftslagsbreytinga mun miðilinn nota orðið loftslagsneyð, loftslagshættuástand eða loftslagsniðurbrot. Enn fremur eru blaðamenn hvattir til þess að tala um hitun jarðar í stað hlýnun jarðar.
Framkvæmdastjóri SÞ og Greta Thunberg nota loftslagsneyð
Katharine Viner, aðalritstjóri The Guardian, segir að miðilinn vilji tryggja að umfjöllun þeirra sé vísindalega nákvæm á sama tíma og miðlað sé skýrt til lesenda upplýsingum um þetta mikilvæga málefni. „Hugtakið loftslagsbreytingar hljómar til að mynda frekar milt og hlutlaust á sama tíma og vísindamenn tala um þetta sem stórslys fyrir mannkynið,“ segir Katharine.
Katharine bendir jafnframt á að vísindamenn og stofnanir frá Sameinuðu þjóðunum sem og breska veðurstofan séu nú þegar búin að breyta orðaforða sínum, og byrjuð að nota áhrifaríkari orð til að lýsa þeirri vá sem vistkerfi jarðar standa nú frammi fyrir.
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, er þar á meðal en hann notaði orðið loftslagsneyð opinberlega í stað loftslagsbreytinga í september síðastliðnum. Auk hans hefur sænska baráttukonan og aðgerðasinninn Greta Thunberg, sem tilnefnd hefur verið til Friðarverðlauna Nóbels, kallað eftir því að loftslagsbreytingar séu kallaðar það sem þær eru í raun og veru, hvort sem það sé loftslagsneyð, hrun vistkerfisins, vistfræðileg neyð eða loftslagskreppa.
Önnur hugtök hafa einnig verið uppfærð hjá miðlinum. Nú verður talað um náttúrulíf í stað líffræðilegs fjölbreytileika og fiskfjölda fremur en fiskstofna. Þá verður ekki lengur talað um að einstaklingar dragi loftslagsbreytingar í efa heldur að þeir afneiti þeim.
Lesturinn aukist gríðarlega
The Guardian skilaði rekstrarhagnaði fyrir fjárhagsárið 2018 til 2019 upp á 800.000 pund eða 127,6 milljónir íslenskra króna, samanborið við 57 milljóna punda tap síðustu þrjú árin þar á undan. Þetta er í fyrsta skipti í nokkurn tíma sem miðillinn nær að vera hinum megin við núllið en ástæðan fyrir breyttri fjárhagsstöðu er metaðsókn í vefinn, minni kostnaður og aukin fjárframlög frá lesendunum sjálfum.
Þá hefur lesturinn á miðlinum aukist til muna síðustu þrjú árin, úr 790 milljónum flettingum á mánuði í janúar 2016 í 1,35 milljarð flettinga í mars 2019.
Samkvæmt miðlinum styrkja 655.000 manns hann mánaðarlega en ásamt því höfðu 300.000 manns styrkt hann í eitt skipti á síðasta ári.