Aðsókn í listkennsludeild Listaháskóla Íslands jókst um ríflega 120 prósent á milli áranna 2018 og 2019 en nú standa yfir inntökuviðtöl við deildina. Þetta kemur fram í frétt LHÍ um málið.
Samkvæmt skólanum er stóraukinni aðsókn ekki síst að þakka nýrri námsleið í deildinni; meistaranám í kennslufræðum fyrir fólk með bakkalárgráðu í öðru en listum.
Námsleiðin miðar að því að mennta fólk sem hefur lokið námi á almennum fræðasviðum en vill nota aðferðir lista í kennslu. Með nýrri námsbraut er markmið listkennsludeildar að efla hlut lista og ólíkrar aðferðafræði mismunandi fagsviða enn frekar í skólastarfi.
„Með því að opna á nám fyrir fólk með bakkalárgráðu í öðrum greinum sem hefur áhuga og einhverja þekkingu á aðferðum lista er markmiðið að byggja brú milli ólíkra greina og fagsviða. Þannig vill Listaháskóli Íslands skila fleiri vel menntuðum kennurum út í samfélagið sem geta verið forustuafl skapandi greina,“ segir í frétt skólans.