Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hélt erindi á alþjóðlegri ráðstefnu á sviði kynjafræða í dag. Þar fjallaði hún um uppgang öfgaafla í Evrópu og um það pólitíska umhverfi sem slík öfl hafa sprottið úr. Þetta kemur fram í frétt forsætisráðuneytisins.
„Bandalag öfga hægri flokka hefur valið sér marga óvini. Ráðist er gegn innflytjendum og minnihlutahópum og þeir gerðir að blórabögglum fyrir allt sem miður hefur farið í tengslum við hnattvæðingu og nýfrjálshyggju undanfarinna áratuga. Réttindum hinsegin fólks er víða ógnað, stundum í þeim tilgangi einum að ná til trúaðra kjósenda,“ sagði Katrín.
Hún benti á að annað skotmark séu femínismi og kynjafræði, og kvenfrelsi almennt. Líkamar kvenna séu dregnir inn í pólitíska umræðu með hætti sem ætti að heyra sögunni til og grafið sé undan fyrri sigrum í baráttu kvenna fyrir yfirráðum yfir sínum eigin líkama.
Forsætisráðherra fjallaði jafnframt um mikilvægi þess að berjast gegn þessum öflum og bjóða almenningi upp á aðra valkosti. Alþjóðleg samvinna væri eina leiðin til að taka á stærstu áskorunum samtímans, þar á meðal loftslagsvandanum og vaxandi ójöfnuði.
Ásamt henni voru á opnun ráðstefnunarinnar Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og rappsveitin Reykjavíkurdætur en um er að ræða alþjóðlega ráðstefnu norræna samstarfsnetsins NORA í kynja- og jafnréttisfræðum sem haldin verður dagana 22. til 24. maí við Háskóla Íslands. Ráðstefnan ber yfirskriftina „Border Regimes, Territorial Discourses and Feminist Politics“ og er haldin á vegum RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum í samstarfi við Alþjóðlegan Jafnréttisskóla og ransóknasetrið EDDU við Háskóla Íslands.
Á ráðstefnunni verða fluttir tæplega 250 fyrirlestrar og fimm lykilfyrirlestrar um álitamál sem varða meðal annars landamæri og jafnréttismál á tímum vaxandi þjóðernishyggju, afnýlendustefnu, femínískt andóf, popúlisma, hinsegin fræði, frumbyggjafræði, og fólksflutninga.