Sigríður Benediktsdóttir, formaður hæfisnefndar um skipan nýs seðlabankastjóra og bankaráðsmaður í Landsbankanum, segir að hún hafi látið regluvörð Landsbankans vita þegar henni var boðið að taka að sér formennsku í þriggja manna hæfisnefnd sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur skipað til að meta hæfni þeirra umsækjenda sem sótt hafa um embætti seðlabankastjóra. Katrín mun síðan skipa næsta seðlabankastjóra eftir að nefndin hefur metið hæfi alls 16 umsækjenda um starfið.
Sigríður segir auk þess að hún hafi beðið regluvörð Landsbankans um að upplýsa bankastjóra bankans, Lilju Björk Einarsdóttur, um að henni hafði verið boðið að sitja í nefndinni. Þetta hafi hún gert áður en hún þekktist boð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um að taka að sér setu og formennsku í hæfisnefndinni.
Þá segir Sigríður að hún hafi upplýst formann bankaráðs Landsbankans, Helgu Björk Eiríksdóttur, um stöðuna áður en það var gert opinbert að Sigríður myndi sitja í nefndinni.
Sturla og Sigríður störfuðu saman hjá Seðlabanka Íslands á árunum 2011 til 2016. Sigríður, sem er formaður nefndarinnar, sat einnig í rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið sem skilaði umfangsmikilli skýrslu í apríl 2010.
Í Markaðnum segir að umsækjendurnir tveir gagnrýni meðal annars að Sigríður leiði nefndina á sama tíma og hún sitji í bankaráði Landsbankans. Sá banki sé stærsti viðskiptavinur Seðlabanka Íslands og eigi verulegra hagsmuna að gæta sem snúi að ýmsum ákvörðunum Seðlabankans.
Þá er því haldið fram í frétt blaðsins að óánægju gæti innan Landsbankans með skipan Sigríðar í nefndina og að hún hafi samþykkt að sitja í henni án þess að bera það undir formann bankaráðs eða regluvörð bankans.
Sigríður segir í samtali við Kjarnann, líkt og áður hefur komið fram, að þetta sé rangt. Hún hafi borið ákvörðunina undir báða þessa aðila. Landsbankinn er í eigu íslenska ríkisins og Sigríður situr í bankaráðinu sem fulltrúi þess, ekki vegna eigin hagsmuna.
Kjarninn óskaði í morgun eftir því að fá bréf umsækjendanna tveggja afhent hjá forsætisráðuneytinu og er sú beiðni nú í vinnslu.
Alls sóttu 16 um starf seðlabankastjóra, en Már Guðmundsson lætur af störfum í ágúst næstkomandi. Hann hefur þá setið þau tvö fimm ára skipunartimabil sem lög heimila honum að sitja.
Ráðgert er að endanleg niðurstaða hæfnisnefndar liggi fyrir eigi síðar en 15. júní næstkomandi.
Umsækjendur um embætti seðlabankastjóra:
- Arnór Sighvatsson, ráðgjafi seðlabankastjóra
- Ásgeir Jónsson, dósent og forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands
- Ásgeir Brynjar Torfason, lektor við Háskóla Íslands
- Benedikt Jóhannesson, fyrrv. fjármála- og efnahagsráðherra
- Gunnar Haraldsson, hagfræðingur
- Gylfi Arnbjörnsson, hagfræðingur
- Gylfi Magnússon, dósent
- Hannes Jóhannsson, hagfræðingur
- Jón Danielsson, prófessor
- Jón G. Jónsson, forstjóri bankasýslu ríkisins
- Salvör Sigríður Jónsdóttir, nemi
- Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri
- Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri markaðs-, viðskipta- og fjarstýringar í Seðlabanka Íslands
- Vilhjálmur Bjarnason, lektor
- Þorsteinn Þorgeirsson, sérstakur ráðgjafi á skrifstofu seðlabankastjóra
- Katrín Ólafsdóttir, lektor