Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta og fjárstýringar hjá Seðlabanka Íslands, og annar ónafngreindur einstaklingur, hafa kvartað formlega yfir skipun Sigríðar Benediktsdóttur, hagfræðings við Yale-háskóla og fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, í þriggja manna nefnd sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur skipað til að meta hæfni þeirra umsækjenda sem sótt hafa um embætti seðlabankastjóra.
Bæði Sturla og ónafngreindi einstaklingurinn, eru á meðal 16 umsækjenda.
Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, í dag. Sturla og Sigríður störfuðu saman hjá Seðlabanka Íslands á árunum 2011 til 2016.
Sigríður, sem er formaður nefndarinnar, sat einnig í rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið sem skilaði umfangsmikilli skýrslu í apríl 2010.
Í Markaðnum segir að umsækjendurnir tveir gagnrýni meðal annars að Sigríður leiði nefndina á sama tíma og hún siti í bankaráði Landsbankans. Sá banki sé stærsti viðskiptavinur Seðlabanka Íslands og eigi verulegra hagsmuna að gæta sem snúi að ýmsum ákvörðunum Seðlabankans.
Í Markaðnum segir að óánægju gæti innan Landsbankans með skipan Sigríðar í nefndina og að hún hafi samþykkt að sitja í henni án þess að bera það undir formann bankaráðs eða regluvörð bankans.
Með henni í nefndinni verða Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins, og Þórunn Guðmundsdóttir, hæstaréttarlögmaður og varaformaður bankaráðs, tilnefnd af bankaráði Seðlabanka Íslands.
Alls sóttu 16 um starf seðlabankastjóra, en Már Guðmundsson lætur af störfum í ágúst næstkomandi. Hann hefur þá setið þau tvö fimm ára skipunartimabil sem lög heimila honum að sitja.
Ráðgert er að endanleg niðurstaða hæfnisnefndar liggi fyrir eigi síðar en 15. júní næstkomandi.
Umsækjendur um embætti seðlabankastjóra:
- Arnór Sighvatsson, ráðgjafi seðlabankastjóra
- Ásgeir Jónsson, dósent og forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands
- Ásgeir Brynjar Torfason, lektor við Háskóla Íslands
- Benedikt Jóhannesson, fyrrv. fjármála- og efnahagsráðherra
- Gunnar Haraldsson, hagfræðingur
- Gylfi Arnbjörnsson, hagfræðingur
- Gylfi Magnússon, dósent
- Hannes Jóhannsson, hagfræðingur
- Jón Danielsson, prófessor
- Jón G. Jónsson, forstjóri bankasýslu ríkisins
- Salvör Sigríður Jónsdóttir, nemi
- Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri
- Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri markaðs-, viðskipta- og fjarstýringar í Seðlabanka Íslands
- Vilhjálmur Bjarnason, lektor
- Þorsteinn Þorgeirsson, sérstakur ráðgjafi á skrifstofu seðlabankastjóra
- Katrín Ólafsdóttir, lektor