Framkvæmdastjórn Evrópuráðsþingsins hafnaði á fundi sínum í París í dag að nýr stjórnmálahópur væri viðurkenndur. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, leiddu andstöðuna við að viðurkenna stjórnmálahópinn og segjast afar ánægðar með niðurstöðuna. Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu frá Rósu Björk og Þórhildi Sunnu.
Í yfirlýsingunni segir að umsókn stjórnmálahópsins hafi verið afar umdeild enda komi meðlimir hennar úr stjórnmálaflokkum sem séu öfga-hægri flokkar, þjóðernissinnar og gefi sig út fyrir að vera á móti innflytjendum og hælisleitendum.
Rósa Björk segir að þetta sýni að hægt sé að sporna við hatursorðræðu og kynþáttahatri í stjórnmálum ef vilji sé fyrir hendi. Þetta sé frábær niðurstaða á tímum þegar vegið sé stöðugt að mannréttindum.
Þrotlaus vinna að standa vörð um gildi Evrópuráðsins
Þórhildur Sunna bætir því við að hún og Rósa hafi lagt þrotlausa vinnu í það að standa vörð um gildi Evrópuráðsins í þessu máli og að sú vinna hafi nú skilað þessum mikilvæga árangri í baráttunni við hatursorðræðu. „Þetta eru þingmenn öfga-hægri flokka, eins og Alternativ für Deutschland og Lega Nord sem bera enga virðingu fyrir gildum Evrópuráðsins. Við gátum ekki samþykkt viðurkenningu þeirra og nú er ljóst að framkvæmdastjórnin gerir það ekki heldur. Því ber að fagna,“ segir hún.
Niðurstaðan ekki auðveld
Rósa Björk skrifar á Facebook-síðu sína í dag að þau í framkvæmdastjórn Evrópuráðsþingsins hefðu hafnað því að ný pólitísk grúbba væri stofnuð. „Grúbban samanstendur af stjórnmálamönnum úr öfga-hægri flokkum, þjóðernissinnuðum, anti-innflytjenda mönnum.“ Hún segir enn fremur að þessi niðurstaða hafi ekki verið auðveld og hafi þurft marga fundi til að komast að niðurstöðu.
Hún segist vera mjög stolt af Þórhildi Sunnu og sér og hvernig þær tvær hafi minnt marga á grunngildi Evrópuráðsþingsins.
GÓÐAR FRÉTTIR ÚR EVRÓPURÁÐSÞINGINU ! Rétt í þessu vorum við í framkvæmdastjórn Evrópuráðsþingsins að hafna því að ný...
Posted by Rósa Björk Brynjólfsdóttir on Thursday, May 23, 2019