Forsvarsmenn Boeing freist þess nú að fá kyrrsetningu á 737 Max vélum félagsins aflétt, en fundað er í Texas í dag með flugmálayfirvöldum í Bandaríkjunum (FAA) og víðar í heiminum.
Meginefni fundarins er að ræða uppfærslu Boeing á hugbúnaði í 737 Max vélunum, og hvenær alþjóðlegri kyrrsetningu á vélunum verður aflétt.
Í Seattle Times í dag, segir að flestir séu sammála um að Max vélarnar muni brátt komast í loftið aftur, en spurningin sé hvenær. Tímasetningar skipti miklu máli fyrir flugfélög og ekki síst nákvæm leiðsögn um hvernig mál geta þróast.
Tvö flugslys, 29. október í Indónesíu og 13. mars í Eþíópíu, eru ástæðan fyrir kyrrsetningunni, en allir um borð í báðum slysunum létust, samtals 346.
Spjótin hafa beinst að MCAS kerfi í vélunum, sem á að sporn við ofrisi, en lokaniðurstöður úr rannsóknum á flugslysunum liggja ekki fyrir. Flugmálayfirvöld í bæði Indónesíu og Eþíópíu hafa þegar kynnt frumniðurstöður, og hafa þau harðlega mótmælt því sem komið hefur fram hjá Boeing, að mögulega hafi flugmennirnir ekki brugðist rétt við aðstæðum. Í báðum tilvikum hafa flugmálayfirvöld, beint spjótunum að flugvélunum, og að gallar í vélunum séu líklegasta ástæðan fyrir slysunum.
Alþjóðleg kyrrsetning á 737 Max vélunum hefur haft mikil alþjóðleg áhrif á ferðaþjónustu, og ná þau áhrif til Íslands, eins og fram hefur komið. Icelandair hefur notast við Boeing vélar í sínum flota, og hafa þrjár Max vélar félagsins verið í kyrrsetningu frá því lok mars, og félagið getur ekki fengið 6 vélar til viðbótar í flotann, á meðan kyrrsetningin er í gildi.
Félagið hefur sagt að samdráttur verði í sætaframboði, um 2 prósent, meðal annars vegna þessa vanda með Max-vélarnar, en óvissa um málin, eins og áður segir. Ítarlega hefur verið fjallað um þennan vanda Boeing, og áhrifin af honum á íslenskt efnahagslíf, á vef Kjarnans.
Undanfarnir tveir ársfjórðungar hafa verið Icelandair erfiðir en félagið tapaði 13,5 milljörðum á því tímabili.
Daniel Elwell, yfirmaður hjá FFA, lét hafa eftir sér í samtali við blaðamenn skömmu fyrir fundinn í Texas í dag, að kyrrsetningin á Max vélunum myndi vara eins lengi og þyrfti. Það væri ekki útilokað að hún yrði í gildi í mun lengri tíma, en nú er reiknað með. Það færi eftir því hvernig það gengi að tryggja öryggi vélanna og fá svör við spurningum.